149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þetta er atvinnugrein sem er sívaxandi, mjög mikilvæg í íslenskum þjóðarbúskap og mikilvægt að hún sé rædd á Alþingi. Ég tel ríka nauðsyn bera til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og nota niðurstöður slíkra rannsókna til að leggja grunn að stefnumótun um uppbyggingu þessarar mikilvægu greinar sem er orðin mikil uppspretta tekna og gjaldeyris fyrir íslenskt þjóðarbú.

Í ferðaþjónustu ber að leggja áherslu á sjálfbærni og þolmörk ferðamannastaða, að greinin sé arðsöm og skilji sem fæst fótspor eftir í náttúrunni. Þá ber umfram allt að leggja áherslu á gæði og öryggi í ferðaþjónustunni.

Þessu tengt vil ég víkja sérstaklega að atriði sem ég hef haft tækifæri til að ræða áður við hæstv. ráðherra, en það er lögverndun á starfsheiti leiðsögumanna. Ég tel að móta beri lágmarkskröfur varðandi nám í þessum fræðum sem yrði þá undirstaða slíkrar lögverndunar. Þá vil ég sömuleiðis nefna að það er ekkert eðlilegra en að í ferðum þar sem sérstaklega reynir á staðþekkingu, þekkingu á veðurfari og öðrum slíkum þáttum ber að gera kröfu um að íslenskur leiðsögumaður sé með í för. Það mætti að sjálfsögðu útfæra nánar eftir tegundum ferða varðandi slíka kröfu en ég tel að slík krafa eigi að vera almenn með þessi sjónarmið fyrir augum (Forseti hringir.) um gæði og öryggi.