149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur umræðuna um stöðu ferðaþjónustunnar og hæstv. ferðamálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, fyrir hennar innlegg. Staðan er vissulega viðkvæm og það er ýmislegt sem hefur áhrif þar á, alþjóðlegar efnahagshorfur, olíuverðshækkanir á síðasta ári og minna flugframboð. Því er m.a. í nýjustu þjóðhagsspá reiknað með samdrætti í ferðaþjónustu á árinu sem mun draga úr vexti útflutnings.

Út frá mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir íslenskan efnahag og atvinnulíf, okkar stærstu atvinnugreinar mælt í útflutningsverðmætum, er eðlilegt að við veltum fyrir okkur spurningum eins og hv. málshefjandi setur á dagskrá og hvernig við mætum þeim áskorunum til frekari eflingar atvinnugreininni. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga hvað það er sem einkennir ferðaþjónustuna sem atvinnugrein og hvaða þættir ráða eftirspurn. Ísland sem áfangastaður samanstendur af fjölmörgum þáttum sem mynda framboð sem hefur áhrif á eftirspurn ferðamanna. Svo er einkum þrennt sem einkennir ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Í fyrsta lagi sveiflast eftirspurn eftir árstíðum. Henni fylgja jafnframt fjárfestingar sem fela í sér háan fastan kostnað og ferðaþjónustuaðilar eru háðir hver öðrum með markaðssetningu og aðdráttarafl. Það er staðreynd að ferðaþjónustan er láglaunaatvinnuvegur alls staðar í heiminum og því er samkeppnisstaðan í ljósi stöðu kjarasamninga mjög viðkvæm.

Hið opinbera þarf að tryggja trausta samgönguinnviði og stofnanaskipulag sem nýtist til upplýsinga, samvinnu um uppbyggingu kjarnaþjónustu og markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar. Ýmislegt hefur verið að færast til betri vegar í seinni tíð eins og hæstv. ráðherra kom inn á, bæði í stofnanaskipulagi og stefnumótun sem er í vinnslu og með Vegvísi sem er í gildi til 2020. Sú staðreynd sem er kannski mikilvægust og er að renna upp fyrir flestum er nauðsyn samvinnu allra aðila sem koma að atvinnugreininni.