149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja umræðu um þennan mikilvæga og sprelllifandi málaflokk. Verið hefur gegndarlaus aukning á komu ferðamanna til landsins undanfarin misseri en nú eru blikur á lofti og eitthvert útlit fyrir afturkipp eða a.m.k. að hægi á straumnum. Það er ekki hundrað í hættunni og nú eigum við að nýta andrýmið til að hugsa okkar gang og leggja nýjar línur. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þessa þjóð sem er fljót að grípa tækifærin, laga sig að breytingum og sveiflum, þjóð sem er vön að sækja sjóinn, nýta sér aflahrotur og temja sér skammtímaúthald og að sama skapi að sætta sig við að allt sé búið, að fiskurinn gefi sig ekki, og er tilbúin að róa á ný mið.

Við þurfum að efla með okkur stöðugleikahugsun, skipulag til langs tíma og skapa forsendur til að ferðaþjónustan geti orðið lífvænlegur starfsvettvangur fyrir venjulegt fólk, að fólk geti lifað af launum sem ferðaþjónustan gefur eftir venjulegan vinnudag. Svo er ekki í dag. Við höfum lagt höfuðáherslu á að koma farþegum til landsins í gegnum eina gátt, Keflavík, og erlendir gestir okkar njóta ekki alls landsins nema í takmörkuðum mæli.

Virðulegur forseti. Við þurfum að leggja áherslu á fleiri gáttir inn í landið en ég þykist vita að margir telji að hindranir séu í vegi þess. Þær eru yfirstíganlegar. Ég nefni flugvellina á Norðurlandi og Austurlandi sem tækifæri, Vesturland og Vestfirðir með sína sérstöðu eiga þarna sína ríkulegu og ónýttu möguleika en greiðar samgöngur eru lykilatriði.

Eðlileg dreifing ferðamanna um allt land getur gert byggð sem staðið hefur höllum fæti mögulega og við sjáum reyndar merki þess á nokkrum stöðum. Ferðaþjónusta er orðin lykilatvinnugrein í landinu og uppspretta hugvits og tekna fyrir fjölda fólks og fyrirtækja. Stjórnvöld hafa hins vegar í úrræðaleysi og ákvarðanafælni látið tímann líða og látið sér úr greipum ganga milljarðatugi í tekjur af komum ferðamanna, tekjur sem eru nauðsynlegar í innviðauppbyggingu á öllum sviðum. (Forseti hringir.) Við þurfum að huga að þjóðarhag og gera hér betur.