149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:51]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir þessa umræðu. Ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, stærri en sjávarútvegurinn, silfur hafsins, eins og stundum hefur verið tengt við sjávarútveginn, sem þó hefur vaxið og dafnað vegna þeirrar staðreyndar að við búum á eyju. Það sama má að sumu leyti segja um ferðaþjónustuna. Við búum á eyju sem er ein sú fallegasta og býr yfir óspilltri náttúru sem er á heimsmælikvarða. Þessi óspillta náttúra er mesta gersemi okkar sem þjóðar. Hún er auðlind sem er sjálfbær í eðli sínu og það „að vernda hana er raunverulega að virkja hana“, með leyfi forseta.

Eins og hæstv. ferðamála- og iðnaðarráðherra kom sjálf inn á er ferðaþjónustan í eðli sínu sveiflukennd. Þar er margt sem veldur, þar á meðal orðspor og tískusveiflur, ferðamannafækkun, eins og við höfum búist við og sjáum strax, og jafnframt verður að minnast á gjaldmiðilinn í þessu samhengi. Eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kom inn á áðan er gjaldmiðillinn það sveiflukenndur að hann veldur einn og sér miklum skaða á þessari stærstu atvinnugrein þjóðarinnar. Það er ábyrgðarhlutur fyrir ríkisstjórnina að horfa á það með opnum augum og upplýstum og gera eitthvað í því. Það hefði átt að gera fyrir löngu en nú horfum við til framtíðar og verðum að gera eitthvað í málunum.

Við búum á eyju, við erum því ofurseld. Við erum háð flugsamgöngum, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á áðan, og t.d. heimsmarkaðsverði á olíu. (Forseti hringir.) Það er kominn tími til og ég vona að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hugsi alla vega um að setja akkeri á þennan sveiflukennda gjaldmiðil okkar. (Forseti hringir.) — Og já, tvær mínútur eru allt of stuttur tími.

(Forseti (GBr): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)