149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra svörin. Nú er tæpt ár síðan hér fór fram sérstök umræða að mínu frumkvæði um dreifingu ferðamanna og vel fer á því að við ræðum ferðaþjónustuna reglulega í þingsal. Það eru blikur á lofti í ferðaþjónustunni og það er að mörgu að hyggja eins og hér hefur komið fram. Þótt það hægi á til skemmri tíma þýðir ekkert að leggja árar í bát heldur verðum við að halda áfram að byggja upp innviði og bæta skipulag, m.a. í markaðssetningu landsins. Ferðamennska á heimsvísu vex einnig. Þetta er spurningin um hver við viljum að okkar hlutur í sjálfbærri ferðamennsku verði.

Ég ætla að beina sjónum að markaðssetningu kaldari svæða sem liggja fjarri alþjóðaflugvellinum í Keflavík, svæða sem eru í meira en fjögurra klukkustunda akstursfjarlægð frá suðvesturhorninu, svæða þar sem vegþjónusta að vetri er lakari, svæða þar sem ferðaþjónustan er enn mjög árstíðabundin. Þetta eru einkum svæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Nú hafa verið unnar áfangastaðaáætlanir fyrir landshlutana og Ferðamálastofa hefur gengið frá samningum við markaðsstofurnar um styrkingu ákveðinna þátta við eftirfylgni þeirra sem er nauðsynlegt og gott. Við stígum stöðugt skref fram á veginn en það vantar stefnu um markaðssetningu þessara kaldari svæða. Getum við ætlað markaðsstofum landshlutanna sem bornar eru uppi af minnstu sveitarfélögunum og veikustu sprotafyrirtækjunum í ferðaþjónustunni að taka ábyrgðina á að dreifa ferðamönnum og markaðssetja meira en helminginn af landinu?

Hæstv. ráðherra. Hvernig samvinnu þurfum við um markaðssetningu á köldu svæðunum? (Forseti hringir.) Þarf bein framlög á fjárlögum? Og hvert er hlutverk Íslandsstofu?