149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þeirra innlegg sem og öðrum þingmönnum. Þetta er mjög áhugaverð umræða. Það er óþarfi að fjölyrða frekar um jákvæð áhrif af þeim vexti sem við höfum upplifað í ferðaþjónustu undanfarin ár en að sama skapi er ljóst að þessi mikla fjölgun ferðamanna hefur sett mikinn þrýsting á þolmörk náttúrunnar og íbúa landsins gagnvart ferðaþjónustunni, eins og skýrsla ferðamálaráðherra um þolmörk ferðamennsku sem rædd var hér á þinginu sl. haust kom vel inn á. Við ræddum þá líka þann þrýsting sem er á sjálfbærni í ferðaþjónustu, gæði þjónustunnar o.s.frv. Það eru auðvitað vonbrigði að áralöng umræða og áhersla, a.m.k. í orði, á aðgangsstýringu, hvort henni skuli beitt og þá með hvaða hætti, hefur litlu sem engu skilað. Ráðuneyti ferðamála undir samfelldri forystu Sjálfstæðisflokksins hefur ekki getað tekið ákvörðun um hvað skuli gera, hvort heimila beri gjaldtöku á vinsælustu ferðamannastöðum í eigu ríkisins til að stýra álaginu, hvort nota eigi komugjöld, hvort nota eigi náttúrupassa eða yfir höfuð eitthvert annað form gjaldtöku til að stýra aðgengi og draga úr álagi einstakra ferðamannastaða og um leið fjármagna ýmis mikilvæg verkefni sem tengjast ferðaþjónustunni eins og vernd og uppbyggingu, dreifingu ferðamanna, uppbyggingu samgöngukerfisins, aukna fjölbreytni í þjónustunni o.s.frv.

Nú stöndum við hér og ræðum hvernig við eigum að takast á við kólnun í ferðaþjónustu, við sem kláruðum ekki að takast á við ofhitnun síðustu ára. En auðvitað eru réttu viðbrögðin við báðum þessum áskorunum vel ígrunduð og vel framkvæmd aðgangsstýring. Aðgangsstýring er svolítið sérstakt orð. Það er ekki þannig að við ætlum að stýra með valdboði hvert ferðamenn fara heldur snýst þetta um að stjórnvöld komi að málum og tryggi að öll svæði landsins, hin svokölluðu köldu svæði t.d., svæði sem ekki eru komin að hættumörkum varðandi þolmörk og svæði sem hafa upp á margt að bjóða, geti keppt á sama grundvelli og önnur svæði sem eru komin að þolmörkum.

Þá er ég komin að því sem mig langar að ljúka máli mínu með, (Forseti hringir.) ekki seinna vænna þegar bjallan glymur, vegna þess að þessi mál hafi verið margrædd í þingsal. (Forseti hringir.) Eitt af því sem skiptir máli í þessu samhengi er að eigendastefna Isavia sé (Forseti hringir.) í takt við áherslur á hagsmuni ferðaþjónustu til lengri tíma. Þar skiptir máli að ráðherra ferðamála komi að borðinu. (Forseti hringir.) Ég vona að stjórnvöld sjái málin á sama hátt og séu sammála því að við stefnumótun í ferðaþjónustu og við mótun eigendastefnu Isavia (Forseti hringir.) þurfum við að ganga í takt.