149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna, sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál, þ.e. aflandskrónulosun og bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi. Þetta er 486. mál og nefndarálitið er á þskj. 968.

Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og einnig frá Seðlabanka Íslands.

Nefndinni bárust þrjár umsagnir, frá Seðlabanka Íslands, Nasdaq verðbréfamiðstöð og Gunnari Þór Gíslasyni.

Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að afnema fjármagnshöft sem sett voru á í kjölfar falls íslensku bankanna árið 2008. Annars vegar er lagt til að við lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, bætist bráðabirgðaákvæði sem kveði á um þrenns konar heimildir til að losa svokallaðar aflandskrónueignir, sem háðar eru takmörkunum samkvæmt lögum, samanber 1. gr. frumvarpsins. Hins vegar eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða III í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sem varðar reglur um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Miða breytingarnar að því að auka sveigjanleika í formi slíkrar bindingar, m.a. með því að heimila að bindingarskylda, sem hingað til hefur eingöngu verið mögulegt að uppfylla með innlögn á bundinn reikning, verði uppfyllt með endurhverfum viðskiptum með innstæðubréf Seðlabankans, samanber 3. gr. frumvarpsins. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að fjárfestar eða fjármálafyrirtæki sem uppfyllt hafa bindingarskyldu á grundvelli núgildandi laga og eiga fjármuni í bundnum reikningum geti í kjölfar gildistöku frumvarpsins breytt fyrirkomulagi bindingar til samræmis við nýjar útfærslur.

Í umsögn til nefndarinnar undirstrikar Seðlabankinn mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa rennur upp, sem er í dag, 26. febrúar. Að öðrum kosti muni umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um nær 70%, eða sem nemur 25 milljörðum kr.

Í umsögninni segir orðrétt:

„Við það eykst hætta á að stórir aflandskrónueigendur, sem átt hafa sín bréf í samfelldu eignarhaldi frá því fyrir höft og taldir hafa verið líklegir til að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum þegar þeirra bréf koma á gjalddaga þann 26. febrúar muni í stað þess leita út þegar þeir losna af bundnum reikningum. Það mun hafa tvenns konar áhrif. Í fyrsta lagi mun Seðlabankinn þurfa að eyða mun meiri forða til að koma í veg fyrir gengisfall í tengslum við losun aflandskróna. Í öðru lagi mun draga meira úr framboði erlends fjár á innlendum skuldabréfamarkaði en reiknað var með þegar frumvarpið var samið. Markaðsaðilar hafa kvartað undan skorti á slíku framboði í tengslum við bindingu fjármagnsstreymis inn á skuldabréfamarkað.“

Þar með lýkur beinni tilvitnun í umsögn Seðlabankans.

Í umsögn bankans til nefndarinnar er jafnframt bent á að orðalag 1. töluliðar a-liðar 3. gr. frumvarpsins megi misskilja á þann veg að þar sé tæmandi upp talið með hvaða hætti fjármálafyrirtæki geti miðlað kjörum og binditíma til fjárfestis. Sú hafi ekki verið ætlunin líkt og ráða megi af greinargerð frumvarpsins. Að auki er í umsögninni bent á að í c-lið 3. gr. þurfi að kveða á um skilmála og kjör innstæðubréfum en ekki eingöngu skilmála, enda sé ætlunin að tryggja Seðlabankanum heimild til að ákveða vexti, verðlagningu, kostnað og fleira í reglum samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um gjaldeyrismál. Nefndin tekur undir ábendingar Seðlabankans og gerir viðeigandi breytingartillögur. Að auki leggur nefndin til að í stað þess að bráðabirgðaákvæði sem með frumvarpi þessu bætist við lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum verði talið upp í 2. mgr. 25. gr. laganna þar sem Seðlabankanum er veitt heimild til að setja reglur um framkvæmd ýmissa þátta laganna, verði málsgrein bætt við bráðabirgðaákvæðið þar sem slík heimild komi fram.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í nefndarálitinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hv. þingmaður, var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Álfheiður Eymarsdóttir, Ásgerður K. Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson og Ólafur Þór Gunnarsson.