149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég skil hv. þingmann þannig að hann telji að verið sé að fara eftir þeirri áætlun sem lagt var af stað með. Þá langar mig að velta upp við þingmanninn hvort hann telji að það sé í samræmi við þær væntingar sem gerðar voru til þessa skrefs, þ.e. hversu mikið fengist fyrir þá fjármuni sem verið er að losa, þ.e. þær væntingar sem settar voru fram árið 2015–2016, eða í þessu ferli öllu saman. Hvort það geti verið að einhver óánægja sé meðal sumra þingmanna, þar á meðal þess sem hér stendur og hugsanlega fleiri, að við fáum mögulega of lítið fyrir fjármunina. Að sú ríkisstjórn sem nú situr og þeir sem eru fylgjandi þessu, hafi gefið fullmikið eftir í einhvers konar samningum sem menn létu teyma sig út í sem ekki skila þeim væntingum sem gerðar voru. Trúir hv. þingmaður því að þarna sé staðið við þær væntingar sem gerðar voru til afnáms haftanna í áætluninni?

Ég ætla að biðja þingmanninn um að vera ekki með útúrsnúninga um að þessir hafa setið í ríkisstjórn og eitthvað svoleiðis. Ég er bara spyrja hvort hann telji að verið sé að fara eftir því sem samþykkt var.

Ef ég skil þetta rétt hafa menn einhverjar væntingar um að vegna þess að þetta sé gert núna muni menn aftur fjárfesta í íslensku efnahagslífi, atvinnurekstri eða kaupa skuldabréf og eitthvað slíkt. Hefur þingmaður einhverja tryggingu fyrir því?