149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel umfram allt að tjónið eða skaðinn, eins og hv. þingmaður nefnir, sé íslenskrar þjóðar. Við erum í þeirri aðstöðu núna að það eru mjög háværar kröfur um að bætt sé úr á ýmsum sviðum, það séu þjóðfélagshópar sem orðið hafi alvarlega út undan og ekki sé hægt að hafa þá nema í einhverri spennitreyju, eins og menn þekkja. Þeir mega sig ekki hreyfa nema að þeir séu skertir í bak og fyrir, ef þeir leitast til að mynda við að bæta hag sinn með aukinni vinnu.

Það vantar svo sannarlega víða pening til góðra mála. Af hverju skyldu Íslendingar, íslensk stjórnvöld, taka þá ákvörðun núna að gefa hér eftir, andstætt því sem lagt var upp með, umtalsverðar fjárhæðir sem gætu þess vegna nýst til góðra málefna?

Ég vil leyfa mér að ítreka það sem ég hef áður sagt: Hér eru íslenskir hagsmunir undir, hér er stórum spurningum ósvarað. Ég held að það sé rétt að menn flýti sér hægt í þessu máli og gaumgæfi hvert skref.