149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að veita mér tækifæri til að skýra þetta frekar. Samanburður minn var í raun afskaplega kurteis og hógvær. Hann byggist á því að við útboðið árið 2017 þegar sjóðunum var hleypt út á genginu 137,5 kr. evran var skráð gengi evrunnar í kringum 110 kr. Munurinn þarna á milli var um 13–15%. Það sem ég átti við var að ef menn hefðu haft kjark til að halda sama mun í þessu útboði, í því síðasta sem er að verða að veruleika í dag, værum við að tala um 83 milljarða. 11–13% ofan á það eru 10–13 milljarðar, eftir því hvernig við reiknum það, hversu langt við förum. Það átti ég við þegar ég tók þetta dæmi.

Auðvitað hefði ég getað tekið miklu raunhæfara dæmi, þ.e. mismuninn á 190 kr. á sínum tíma og því sem boðið er upp á nú. Þar skiptir tugum milljarða. En það er eins og menn hafi ekki haft kjark eða löngun eða döngun til þess að innheimta — ég vil segja innheimta — þann mun. Eins og fram hefur komið í máli fleiri þingmanna er það sem við erum að innheimta eða höfum verið að gera, ætluðum að gera samkvæmt planinu frá 2015, sá herkostnaður sem hrunið kostaði og sá skaði sem hann olli íslenskri þjóð. En núna hafa menn guggnað á því og gefist upp við það.