149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir prýðisræðu. Hann kom inn á það í máli sínu að vaxtakjör, sem mönnum stæðu til boða hér á Íslandi, væru með allt öðrum hætti en fjárfestar þekktu erlendis, sérstaklega nú á síðustu misserum þar sem stýrivextir eða aðalvextir seðlabanka á hverju svæði fyrir sig eru í námunda við núllið. Mér leikur hugur á að vita hvort hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hafi áhyggjur af því að flótti bresti á í hóp erlendra fjárfesta sem hér eru út frá vaxtakjörunum einum og sér, eins og virðist að einhverju marki skína í gegn, hvað áhyggjur þeirra sem harðast ganga fram hvað þetta mál varðar gefa manni tilefni til að ætla.

Þekkir hv. þingmaður til fleiri markaðssvæða í hinum vestræna heimi þar sem fjárfestum standa til boða viðlíka stýrivextir og þar sem undirliggjandi efnahagsástand er í lagi? Menn geta auðvitað fundið staði hér og þar á heimskringlunni þar sem allt er í hers höndum og undirliggjandi vaxtaprósenta skiptir kannski ekki öllu máli. En það er þó þannig að vextir hér eru með hæsta móti miðað við það sem gerist í þeim samfélögum sem við berum okkur saman við. Mér leikur hugur á að vita hvort hv. þingmaður hafi áhyggjur af því að vextirnir sem slíkir verði hvati fyrir fjárfestana til að yfirgefa Ísland.