149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Þar kom margt fróðlegt fram. Mig langar aðeins að horfa til hans ágætu reynslu í stjórnmálum sem fyrrverandi utanríkisráðherra, hann var þekktur fyrir að vera staðfastur í því embætti og gefa ekki eftir þótt á móti blési. Er það mjög virðingarvert og mættu nú stjórnarflokkarnir taka það sér til fyrirmyndar og sérstaklega í þessu máli.

Mig langar að fá hugleiðingar hv. þingmanns um hvaða áhrif hann telur að þetta gæti haft, þ.e. að ríkisstjórnin gefi hér eftir og þessir sjóðir, sem komu hvað verst fram og neituðu að spila með, eins og hefur verið nefnt hér, standa greinilega uppi sem sigurvegarar. Það spyrst að sjálfsögðu út að það hafi borgað sig að sýna þessa stífni og neita að semja við íslensk stjórnvöld því að þau myndu á endanum gefa eftir.

Það er það sem gerst hefur hér. Mig langar að heyra um það frá hv. þingmanni sem fyrrverandi utanríkisráðherra: Telur hann að þetta geti haft áhrif á samningaviðræður sem við gætum þurft standa frammi fyrir gagnvart öðrum þjóðum í framtíðinni? Verður bara litið þannig á að Íslendingar muni alltaf gefa eftir á endanum þannig að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af því? Við sjáum t.d. varðandi EES-samninginn og stöðu landbúnaðarins vegna EFTA-dómsins um innflutning á hráu kjöti o.s.frv. að þar þarf náttúrlega að ná samningum. Erum við ekki búnir að veikja stöðu okkar með þessu máli?