149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál, þ.e. aflandskrónulosun og bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi.

Í greinargerð með frumvarpinu er í inngangi sagt, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samvinnu við Seðlabanka Íslands. Frumvarpið er eitt af lokaskrefum stjórnvalda til að afnema fjármagnshöft sem sett voru á í kjölfar falls íslenska fjármálakerfisins 2008. Eftirstandandi takmörkunum á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti má í meginatriðum skipta í tvennt, annars vegar þær sem felast í lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, …“

Síðar í greinargerðinni er talað um um hvaða upphæðir sé að ræða, sem sagt flokk aflandskrónueigna, þ.e. ríkisbréf, ríkisvíxlar og önnur bréf með ríkisábyrgð upp á 39,5 milljarða, innlán og innstæðubréf Seðlabankans upp á 36,7 milljarða og önnur verðbréf og hlutdeildarskírteini upp á 7,9 milljarða, samtals 84 milljarðar.

Það sem vekur furðu okkar sem höfum verið í ræðumennsku núna seinnipartinn í dag er málsmeðferðin sem málið hefur verið í. Fyrir jólin átti á síðasta degi fyrir jólafrí að koma þessu inn, svolítið bakdyramegin eins og sumir sögðu, en því var hafnað. Síðan kom það til 1. umr. 22. janúar en hlaut enga umræðu þá og fór til nefndar og er núna komið til umræðu en samt með þeirri aðferð sem við í Miðflokknum setjum mikið út á og áttum okkur ekki á hvers vegna málið fær ekki þá umræðu sem það þarf að fá um þessar gríðarlegu upphæðir og þær spurningar sem vakna við meðferð málsins. Þeim spurningum er enn ósvarað. Það hefur enginn í raun og veru komið hingað úr ríkisstjórninni til að svara spurningum sem við höfum verið að kasta á milli okkar sem ríkisstjórnin, eða alla vega formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem mælti fyrir málinu, gæti vonandi svarað.

Hv. þm. Óli Björn Kárason mælti fyrir nefndarálitinu í dag og þar segir, með leyfi forseta:

„Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að fjárfestar eða fjármálafyrirtæki sem uppfyllt hafa bindingarskyldu á grundvelli núgildandi laga og eiga fjármuni á bundnum reikningum geti í kjölfar gildistöku frumvarpsins breytt fyrirkomulagi bindingar til samræmis við nýjar útfærslur.

Í umsögn til nefndarinnar undirstrikar Seðlabankinn mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa rennur upp 26. febrúar næstkomandi. Að öðrum kosti muni umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um nær 70% eða sem nemur um 25 milljörðum kr. Í umsögninni segir: „Við það eykst hætta á að stórir aflandskrónueigendur, sem átt hafa sín bréf í samfelldu eignarhaldi frá því fyrir höft og taldir hafa verið líklegir til að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum þegar þeirra bréf koma á gjalddaga þann 26. febrúar muni í stað þess leita út þegar þeir losna af bundnum reikningum.““

Svo mörg voru þau orð.

Þar kemur þessi dagsetning fram, 26. febrúar, sem er reyndar í dag. Það segir manni að einhverra hluta vegna þurfi málið að fá þessa hröðu afgreiðslu, með tveimur umræðum í dag, til að verða að lögum. En svarið liggur ekki ljóst fyrir hvers vegna.

Þingmenn hafa farið yfir málið vítt og breitt og hef ég í raun og veru ekki svo miklu við það að bæta, en mig langar aðeins til að fara yfir söguna í smásöguskýringu vegna þess að fram kom í ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan þegar sá hinn sami var hæstv. utanríkisráðherra, að þá hafi hann orðið þess var hjá aðilum erlendis víða að þeir tóku eftir því hvað stjórnmálamenn eða ríkisstjórn þess tíma var staðföst og stóð í fæturna og stóð í raun og veru með landi og þjóð. Það verður náttúrlega að segjast eins og er, eða ég hef þá trú að hver einasti maður sem fer inn á þing hugsar þannig. En mér hefur fundist brotalöm hafa verið á því síðustu ár og jafnvel áratugi, og fer slíkum þingmönnum fækkandi vegna þess að menn reiða sig of mikið á embættismenn og aðra slíka, ábyrgðartilfinningin vill svolítið verða óljós.

En þegar hrunið varð árið 2008 og allt fór hérna á hliðina voru sett á neyðarlög og þau hafa reynst okkur vel. Þó að þau hafi verið mikið gagnrýnd á sínum tíma hefur tíminn leitt í ljós að þau björguðu okkur á þeim tímapunkti frá algjöru gjaldþroti. Síðan voru fjármagnshöftin sett á til að sporna gegn útflæði fjármagns með tilheyrandi tjóni. Ríkisstjórninni sem sat 2009–2013 var mikill vandi á höndum en þar unnu menn mikið þrekvirki, það verður að segjast eins og er.

Samt sem áður man ég eftir því þegar ég var í minni vinnu á þeim tíma að mér fannst vanta upp á þá staðfestu og einurð að einbeita sér að vandamálinu algerlega, þannig að ekki væri verið að gera neitt annað á meðan, það væri bara verið að þétta skútuna, verið væri að kalfatta í lekann og ná nýrri stefnu. En þá var farið í aðgerðir sem lunganum af þjóðinni hugnaðist ekki. Það var farið að sækja um inngöngu í ESB. Farið var í mikla vinnu við endurskoðun á stjórnarskrá og sett upp stjórnlagaráð og unnið var að gerð nýrrar stjórnarskrár og gömlu stjórnarskránni kennt um allt sem miður hefði farið.

Þar með upplifði ég og margir fleiri að fókusinn hefði farið af því verkefni að þétta skútuna og menn hefðu gefið það svolítið út að sjálfstraust þjóðarinnar, sjálfsöryggi stjórnmálamanna, væri ekki mikið. Auðvitað höfðum við lent í mikilli krísu og við misstum svolítið móðinn og máttinn, en þarna fannst mér stjórnmálamenn ekki standa mikið í lappirnar og það gekk á ýmsu. Enda sýndi það sig eftir á að ef menn hefðu viljað fara út í þetta hefði það mátt bíða betri tíma.

Af því ég er að tala á þessum nótum er eitt sem pirrar mig svolítið, það er þessi ímynd þjóðarinnar út á við. Við tölum um að við þurfum að líta svo vel út út á við, það er góðra gjalda vert. En það er líka svo að ef maður hugsar eingöngu þannig þá hugsar maður kannski ekki mikið um sjálfan sig. Og af því að ég talaði um sjálfstraust þá hlýtur sjálfstraust þjóðarinnar, sjálfstraust einstaklingsins og sjálfstraust yfirleitt, að vera best undirbyggt með því að hugsa um eigin fjölskyldu, að hugsa um að standa sig og standa sína plikt í staðinn fyrir að líta eitthvað vel út í augum annarra.

Ég gæti nefnt mörg dæmi þar að lútandi, t.d. eins og nýjasta dæmið núna. Nú er verið að tala um hvalveiðar og hrátt kjöt og slíkt. Þetta er það sem er á dagskrá, og eins í sambandi við það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur gefið út, það sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að hægt sé að veiða hval og staðfesta það hjá sjávarútvegsráðherra. Þá fara margir á límingunum yfir því að við ætlum að fara að drepa hval og það sé engin sjálfbærni í því og það sé eingöngu gert fyrir einn mann, sem er alveg vitlaus í að skjóta hval. Svona er umræðan. En í mínum huga þarf ekkert endilega drepa hvalinn, en við vitum þó með þessari útgáfu um hugsanlega stofnstærð og hvað má veiða úr stofninum. Og síðan ef einhver sér sér hag í því að veiða hval og fá það gott verð fyrir hann að það borgi sig, þá er það bara hið besta mál í mínum huga. En þarna er talað um ímynd út á við. Og þjóðir hafa hótað okkur einhverjum viðskiptaþvingunum og talað er um að þetta sé á kostnað hvalaskoðunar, sem reyndar hefur ekki sannað sig, og annað slíkt.

Mér finnst að við þurfum að standa með okkur sem þjóð. Það eru ekki bara við miðaldra karlmenn sem tölum undir merkjum þjóðrembu þegar við tölum svona. Það getur vel verið að ég sé þjóðremba, ég er bara stoltur yfir því. Ég elska og virði mitt land og vil gera það með reisn.

Og eins datt mér í hug núna þegar við ræðum þetta mál að okkur, sem höfum haldið ræður hérna, finnst við gefa allt of mikið eftir. Það hefur líka komið fram í ræðum að nú eru kjaraviðræður að sigla í strand. Skattatillögur ríkisstjórnarinnar féllu ekki í góðan jarðveg hjá verkalýðsforystunni. En þar stendur ríkisstjórnin keik: Það er ekki hægt að gera meira fyrir ykkur. Það mun þýða þetta og þetta, höfrungahlaup upp stigann og verðbólgu og annað slíkt.

Þar af leiðandi er fólk sem er með lægstu tekjurnar bæði sárt og reitt, skiljanlega, ef stjórnmálamenn standa ekki betur með því en þetta. Þó að kjaraviðræður fari ekki fram við ríkisstjórnarborðið þá er ríkisstjórnin að gefa þarna svolítinn tón, sýna vissa staðfestu gagnvart lítilmagnanum. Það er oft þannig að oft er harðast komið fram við þá sem minna mega sín, en þeir sem eru stórir og sterkir, þá er ég að tala um peningalega af þessu tilefni, ráða oft ferðinni. Það kalla ég minnimáttarkennd.

Fram kom í ræðum áðan að við erum alltaf að glíma við hátt vaxtastig á Íslandi. Það eru orð að sönnu og sumir vilja skipta yfir í annan gjaldmiðil og ég veit ekki hvað og hvað. En við í Miðflokknum erum með skýra stefnu í þessum málum. Við vorum með mjög skýra stefnu í að ráðast á fjármálakerfið, ekki ráðast á það, heldur fara í kerfisbreytingu á fjármálakerfinu í vissum skrefum, en ekki með neinni hallarbyltingu. Þar koma lífeyrissjóðirnir inn í. Talað er um fákeppni. Lífeyrissjóðirnir eiga svo mikinn pening í dag að þeir fjárfesta í fyrirtækjum fram og til baka á Íslandi og meðaljóninn, lítil fyrirtæki hafa ekki roð í að keppa við þá. Fjárfestingarkrafa lífeyrissjóðanna um er 3,5%. Margir leiða að því líkur að 3,5% sé partur af því hvað stýrivextir Seðlabankans eru háir. Eitthvað er örugglega til í því.

Þess vegna höfum við sagt að við þyrftum í skrefum að skapa lífeyrissjóðunum þann kost að þeir geti farið að fjárfesta annars staðar en á Íslandi fyrir jafn mikla eða hærri ávöxtun en þeir fá hér heima við. Við kölluðum það á sínum tíma að lífeyrissjóðirnir þyrftu að fara að fullorðnast og vinna fyrir sér og halda út í hinn stóra heim. Til hliðsjónar var haft hvernig Norðmenn stýra sínum olíusjóði sem reynst hefur mjög vel. Þetta er eitthvað sem kemst ekki mikið í umræðuna. Og margir segja þegar farið er að ræða um lífeyrissjóðina: Látið þið lífeyrissjóðina í friði. En við erum ekki að tala um að fara að skipta okkur af lífeyrissjóðunum sem slíkum, heldur bara að skapa þeim þá aðstöðu að þeir sjái sér vænni kost í því að fjárfesta annars staðar og jafna þá samkeppnisstöðu hér heima og í leiðinni væri hægt að horfa til lægri vaxta á öllum sviðum fjármálakerfisins, bæði innlána og útlána.

Ég sé að tími minn er á þrotum. Það er gaman að láta hugann reika í þessu máli, en áhyggjurnar eru samt sem áður fyrir hendi.