149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir ræðuna. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna enginn vilji er hjá fylgismönnum þessa frumvarps að koma hér til að útskýra það fyrir okkur og mögulega að fá okkur til að ganga í þeirra lið og styðja þetta frumvarp, ef hægt er að útskýra það með þeim hætti að það standist einhverja skoðun. Á það hefur ekki reynt. Hér var nefndarálitið lesið upp. Að öðru leyti hefur ekki verið fjallað um það í þessum sal, í þessari umræðu sem hófst kl. þrjú, hálf fjögur. Ekki hefur verið fjallað um það af hálfu þeirra sem eru fylgjandi frumvarpinu.

Hv. þingmaður kom með dæmi um tölur upp á 13,6 milljarða sem við gætum örugglega nýtt í eitthvað. Samgöngur, svo dæmi sé tekið, eða eitthvað annað. Menn tína ekki svona upp af götunni.

Er einhver skýring á því hvers vegna hér kemur ekki nokkur einasti maður til þess að skýra málið út til að svara þeim spurningum sem við höfum spurt? Hvers vegna liggur á þessu? Trúa menn því virkilega að þetta hafi þau áhrif sem Seðlabankinn talar um í umsögn sinni? Ekki er talað um nein hræðileg áhrif í frumvarpinu sjálfu, svo ég viti til.

Hvaða áhrif hefur þetta á fjármálaáætlun? Hefur þetta einhver áhrif eða engin áhrif? Hefur þetta áhrif á vaxtastig í landinu? Hefur þetta áhrif á gengi gjaldmiðilsins? Hvað þýðir það þá fyrir verðbólgu? Ekki er reynt að setja neinar tölur á þetta. Maður veltir fyrir sér hvers vegna það sé. Hafa menn einfaldlega ekki áhuga á því að ræða aflandskrónur? Eru menn bara orðnir saddir eða er það vegna þess að þeir hafa ekki þekkingu á því eða vilja ekki setja sig inn í það? Vegna þess að þetta er vitanlega stórmál. Þetta er hluti af því sem hófst hér við að reyna að endurreisa þetta land, þ.e. að ná sem mestu til baka af þeim fjármunum sem annars hefðu og eru að fara úr landi í vösum þessara vogunarsjóða eða eigenda aflandskróna.