149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var að mínu mati afburðagóð ræða hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, hnitmiðuð og skýr. Þegar það að verjast ólögmætum kröfum barst í tal í andsvörum þá fannst mér augnablik eins og ég sæi bregða fyrir ræðuskörungnum Winston Churchill. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson talar hins vegar skýrar en Churchill og talar íslensku, enda þingmálið íslenska eins og virðulegur forseti minnir okkur reglulega á.

Ég hef þess vegna engar sérstakar athugasemdir við þessa ræðu sem slíka en vil engu að síður í framhaldi af henni fá að spyrja hv. þingmann, sem hefur lengi látið sig mál eldri borgara miklu varða og barist hart fyrir bættum kjörum þeirra og hagsmunum almennt: Hvernig stendur á því, að mati hv. þingmanns, að stjórnvöld hafa ekki einu sinni fyrir því að reikna út þær upphæðir sem hér eru undir sem hér er verið að gefa eftir? Þau hafa ekki fyrir því að koma hér og ræða málið. Virðist þykja það léttvægt að gefa eftir, hugsanlega 23 milljarða, bara í síðustu umferð, hafandi sýnt undanhald aftur og aftur í þessu ferli öllu frá því á vormánuðum eða sumarið 2016.

Hvernig kemur hv. þingmaður því heim og saman að sama fólk geti látið sér slíkar upphæðir í svo léttu rúmi liggja en ekki kemur til greina af hálfu sama fólks að setja fjármagn í að afnema t.d. krónu á móti krónu skerðingar sem virðast tiltölulega léttvægar upphæðir í þessum samanburði og upphæðir sem væri vel varið og myndu eflaust skila sér til baka.