149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Nefndarálit með breytingartillögu sem liggur fyrir er rúm blaðsíða. Hér er um að ræða mál af stærðargráðunni 84 milljarðar. Ég get ekki séð að nein rök séu færð fram í nefndarálitinu fyrir því hvers vegna við þurfum að samþykkja þetta núna. Það er vísað í umsögn Seðlabanka Íslands, sem ekki einu sinni færir haldbær rök fyrir því hvers vegna þurfi að samþykkja þetta. Það er talað um að það aukist hætta, en það er hins vegar ekki rökstutt hvernig Seðlabankinn fær það út að þessi hætta aukist. Hvað hefur hann fyrir sér í því nákvæmlega? Er búið að ræða við þessa aðila? Það er þess vegna sem ég segi og velti því upp við hv. þingmann að það vanti rök fyrir því að þetta mál þurfi að fara í gegn með þessum hætti.