149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:53]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Já, við ræðum enn frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál (aflandskrónulosun og bindingarskylda á fjármagnsstreymi). Eins ræðum við nefndarálit sem mælt var fyrir í dag af hv. þm. Óla Birni Kárasyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar. Töluvert hefur verið rætt um þetta nefndarálit, að það útskýri ekki mikið fyrir okkur hvernig í málinu liggur.

Það hefur borið á góma, það sem segir í umsögninni um það, með leyfi forseta:

„Í umsögn til nefndarinnar undirstrikar Seðlabankinn mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa rennur upp 26. febrúar næstkomandi. Að öðrum kosti muni umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um nær 70% eða sem nemur um 25 milljörðum kr.“

Þegar maður les þetta hugsar maður: Nú, já, er þetta svona? Þá verðum við sennilega að bregðast við. En við efumst og við viljum fá meiri umræðu og frekari skýringar á því hvort þetta sé svona einfalt. Menn sem hafa verið lengur á þingi en ég og hafa miklu meira vit á þessu gjalda varhuga við því að þetta mál sé svona einfalt og að við stöndum ekki í lappirnar gagnvart þeim fjármagnseigendum sem þarna eiga fjármagn inni.

Það hefur líka komið fram að þessir aðilar neituðu að taka þátt í útboði Seðlabankans á sínum tíma en þeim hefur verið boðin þessi afgreiðsla á kjörum á genginu 136,5 eins og kom hér fram. Það er ansi vel í lagt. Þegar losun fjármagnshafta var samþykkt árið 2014 og 2015 var talað um að fjármagnseigendur greiddu til ríkisins, en það er ekki gert í þessu. Eins og margoft hefur verið tekið fram var tekin U-beygja í því máli sumarið 2016 eftir breytingar í ríkisstjórn sem þá var.

Það hefur líka komið fram í ræðum í dag að í kosningabaráttunni 2016 — það var kosið þar um haustið, í september eða október — hefðu fjármagnseigendur, eða þeir sem áttu í þessum sjóðum, verið í eins konar kosningabaráttu. Það kom fram að þeir höfðu notað hugveitur til að auglýsa áróður í kosningabaráttu til alþingiskosninganna 2016. Mann rekur í rogastans þegar maður heyrir svona og vill kannski ekki beint trúa því. En ef svo er þá er það ansi vond frétt og ljótur leikur að fjármagnsöfl taki þátt í kosningaáróðri.

Ýmislegt annað hefur komið fram hér í ræðum sem maður vill fá frekari umræðu um. Við höfum kallað eftir því að aðrir flokkar í stjórnarandstöðu komi hér inn og ræði þessi mál líka. Maður hefur heyrt það svolítið á göngum Alþingis í dag frá stjórnarandstöðufólki að við séum bara að tefja málið, sem við erum náttúrlega að gera. Þegar við höfum spurt af hverju þau taki þátt í þessu með okkur vilja þau ekki lengja málið. En eins og kom fram í ræðu áðan hefði það sennilega stytt málið ef allur þingheimur hefði tekið þátt í umræðunni og við hefðum náð að komast lengra með það í stað þess að standa í þessum hjólförum spólandi hér einn flokka í þessari umræðu. Er það frekar miður í mínum huga að þurfa að standa í því. En við stöndum fast á því að leita réttu svaranna, geta tekið upplýsta ákvörðun þannig að maður geti greitt atkvæði í svona stóru máli af heilum hug, hvort sem maður ýtir á rautt, grænt eða gult.

Það hefur oft komið fram, og ég kom inn á það í ræðu minni í dag, að stundum væri talað um að við alþingismenn værum að verða eins konar stimpilpúðar. Oft og tíðum finnst manni það, t.d. þegar við tökum hér fyrir mál eins og EES-innleiðingar og annað slíkt, sem koma oft korteri fyrir þinglok og eru oft og tíðum matreidd annars staðar og síðan eigum við að greiða um þær atkvæði. Maður veit oft og tíðum ekki hvað liggur að baki. Það hafa líka nokkuð oft komið upp mál þar sem þingið hefur samþykkt eitthvað sem er þjóðinni ekki til heilla.

Ég man t.d. eftir einu máli um atvinnubílstjóra. Það var námskeið fyrir atvinnubílstjóra, fimm námskeið sem kostuðu 100.000 kr. og ef þeir færu ekki á það námskeið myndu þeir missa atvinnuskírteinið. Það var mikið fjaðrafok í kringum það. Þessi lög eru í gildi í dag, en það er verið að reyna að aðlaga þessi námskeið íslenskum aðstæðum. Það var þannig, og það stóð á einum stað í því plaggi, að þetta ætti ekki við um eyland heldur einungis um lönd þar sem landamæri liggja saman, þar sem keyrt er á milli landamæra á bílum. Þetta náði samt einhvern veginn hingað og var afgreitt í þinginu árið 2015 eftir margra ára sögu. Ég er alveg viss um — gott ef ég var ekki hér á þingi og greiddi atkvæði um þetta — að menn voru ekkert með það á hreinu hvað þeir voru að greiða atkvæði um. Talandi um upplýsta ákvörðun þá er þetta svona dæmisaga um það.

Menn hafa verið að vitna í blaðagreinar þar sem títtnefndur blaðamaður, Hörður Ægisson, hefur verið að útskýra mál og vara við ákvörðunum sem á að fara að taka. Ég er ekki búinn að fara í gegnum þær margar, en samt einhverjar. Það er greinilegt að þar skrifar maður sem veit hvað hann er að segja og ætla ég að fræðast betur um það.

Að lokum vil ég segja að ég sakna þess að ekki hafi aðrir en við í Miðflokknum tekið til máls. Þetta er þörf umræða. Þetta er stórt mál. Við erum að tala í milljörðum króna. Við viljum fá meiri upplýsingar áður en við göngum lengra í þessu máli.