149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir prýðilega ræðu. Ég veit að hv. þingmaður var mikið inni á tímabilinu 2013–2016 sem varamaður, enda fyrsti varamaður fyrir fjóra þingmenn og þar af ráðherra. Man hann eftir jafn viðamiklu máli á þingferli sínum hvað hagsmuni varðar sem fékk jafn litla umræðu í þingsal frá stjórnarþingmönnum og þetta? Í þessu tilviki erum við að tala um sjö mínútna ræðu frá hæstv. fjármálaráðherra og sex mínútna ræðu frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni, framsögumanni nefndarálits. Það vantar ekki upp á að við höfum kallað eftir því að fá stjórnarliða í umræðuna í dag. Ég man ekki eftir að hafa kallað jafn oft eftir því hvað mig varðar. Man hv. þingmaður eftir viðlíka tregðu stjórnarliða til að tjá sig um frumvarp, annaðhvort frá því að hann kom inn sem aðalmaður í lok árs 2017 eða frá fyrri tíð, þar sem ég veit að hann var reglulega inni á tímabili þar sem mikið gekk á og mörg stór mál voru til umræðu?