149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég þykist vita að hann sé jafn bjartur í sinni núna þegar tveir stjórnarþingmenn hafa tekið til máls, þó í frammíkalli sé. Það gefur þeim væntanlega kjark til að taka fullan þátt í þessari umræðu og reyna að útskýra fyrir okkur hinum hverju það sæti að þetta mál á að fara í gegn á þremur tímum og korteri, mál sem varðar alla þjóðina miklu og þar sem vantar líklega eina 23 milljarða upp á að þjóðin fái það sem henni ber fyrir þau verðmæti sem verið er að láta af hendi. Þess vegna langar mig til að koma þeirri spurningu áleiðis til hv. þingmanns hvort nærvera þessara tveggja heiðursmanna, kollega okkar hér í salnum, veki honum von um það eins og mér að þeir muni nú taka á sig rögg og setja sig á mælendaskrá og segja okkur hinum hvað það er sem við erum að fara með rangt í máli okkar og leiða okkur á rétta braut. Vonast hv. þingmaður eins og ég til að þetta gerist?