149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Maður veltir fyrir sér, þegar maður horfir yfir þessi mál tvö, mjög skyld mál, Arionbankamálið og svo þetta aflandskrónumál, hvort stjórnvöld séu yfir höfuð með á nótunum, hvort þau viti hvað þau eru að gera eða hvort þau láti mata sig, átti sig ekki á því hvað þau eru að gera. Láti skrifa fyrir sig frumvörp, rétt laumist inn í þingsal til að lesa frumvarpið og laumist svo inn í þingsal til að lesa nefndarálit en geti ekki mætt til leiks til að verja afstöðu sína af því að þau vita ekki alveg á hverju hún byggist. Er hugsanlegt að þetta sé afleiðing af því að stjórnvöld séu ekkert við stjórnvölinn í þessum málum? Að þau láti skammta sér niðurstöður og skýringar en þegar kallað er eftir því hvað felist í skýringunum verður fátt um svör og menn fela sig víðs vegar um húsið og þora varla að líta inn í sal — og alls ekki taka þátt í umræðunum.