149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á seinni spurningunni. Það var ekki að ástæðulausu að skrúfað var fyrir þær aðgerðir, en því miður var þetta kannski lýsandi fyrir það að menn hugsuðu ekki hlutina heildstætt. Það átti einmitt að vera meginkosturinn við þá aðgerðaáætlun frá 2015, að hún tók á málinu í heild. Og þeim mun meiri synd er það þá núna að menn skuli ekki ætla að klára heildarpakkann, heldur hverfa frá honum með svona afgerandi hætti.

Þá að spurningunni um hvort ég minnist annars eins skorts á umræðu eða skýringum af hálfu stjórnvalda eða ríkisstjórnar þegar hún kynnir stórt mál til sögunnar. Nei, ég verð að játa að ég minnist þess ekki. Auðvitað hafa verið umdeild mál þar sem fulltrúar ríkisstjórnar hafa á heildina litið ekki tjáð sig eins mikið um mál og fulltrúar stjórnarandstöðu þegar umræður eru gerðar upp. En þá hafa menn þó verið búnir að gera grein fyrir málunum og skýra þau og stjórnarandstaða hugsanlega farið í svokallað málþóf til að reyna að skapa sér einhverja stöðu gagnvart samningum við ríkisstjórn eða eitthvað slíkt.

Hér eru hins vegar engar skýringar. Hér höfum við heyrt, eins og hv. þingmaður nefndi, sex mínútur af skýringum sem reyndar lágu fyrir hérna frammi á blaði, því að hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, gerði ekki annað en að lesa upp nefndarálit meiri hluta nefndarinnar, hafði engu við það að bæta, og enginn stjórnarliði og enginn úr stjórnarsamstöðunni hefur treyst sér til að koma hingað upp (Forseti hringir.) til að verja málið. Enginn.