149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður ræddi nokkuð í ræðu sinni um sinnaskipti sem orðið hafa hjá fólki í stjórnarliðinu varðandi allt þetta mál. Ég velti fyrir mér öðrum vinkli og hvort hv. þingmaður hafi hugsað þann flöt. Nú veit ég svo sem ekki hvaða upplýsingar hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa um eigendur þeirra vogunarsjóða sem hér um ræðir. Ég velti fyrir mér hvort restin af mannskapnum, þar á meðal vinstri flokkarnir sem virðast hafa hug á því að málið renni í gegn — ég spyr, ætli þetta ágæta fólk viti fyrir hverja það er að berjast? Ætli það geri sér grein fyrir hverjir þessir andlitslausu eigendur í útlöndum eru, sem það er tilbúið að berjast fyrir, framar hagsmunum Íslendinga?

Ef svo er þætti mér það mjög athyglisvert ef menn eru tilbúnir að vinna slíkt verk, þ.e. að taka svari erlends vogunarsjóðs, sem fólk veit hvorki haus né sporð á, veit ekki hverjir eiga, veit ekki hverjir hagnast á, en það er reiðubúið til að taka svari þeirra fram yfir hagsmuni sem íslenska þjóðin hefur greinilega af því að fá sem hæst verð fyrir þær aflandskrónur sem hér um ræðir. Sýnt hefur verið fram á að þær geti numið allt að 23–26 milljarða kr. eftir því hvernig við horfum á það. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hefur hugsað þetta mál út frá því sjónarhorni.