149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hræddur um að það sé nokkuð til í þessari vangaveltu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hvað það varðar að menn séu kannski heilt yfir ekki mjög upplýstir um þetta mál. Það er bara eins og gengur með störfin hér í þinginu að innan þingflokka treysta menn fulltrúa sínum í tiltekinni nefnd fyrir því að fara fyrir hópnum þegar kemur að því að taka afstöðu til tiltekins máls. Í þessu tilviki virðast í rauninni allir fulltrúar stjórnmálaflokka hafa hoppað á þennan vagn sem virðist vera eins illa grundaður og með létta ballest og raun ber vitni.

Ég ætla að leyfa mér að orða það þannig að ég vona að það hafi bara vantað á kynningu og umræðu um málið, því úr því er hægt að bæta. Ég trúi því illa, af því að ég talaði um þingmenn Samfylkingarinnar í ræðu minni og sá flokkur er auðvitað þekktur fyrir það að hafa mikinn áhuga á aukinni tengingu við Evrópusambandið, ég trúi því hreinlega ekki að menn noti svona mál í einhverju slíku samhengi. Ég trúi ekki öðru en að þarna séu einhverjar upplýsingar sem vanti til að menn átti sig á þeirri mynd sem raunverulega blasir við þegar búið er að taka ystu lögin af þessum lauk, en við höfum verið að reyna að komast að kjarna hans í dag.