149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held því miður og sú tilfinning situr töluvert í manni að það hafi átt að reyna að stimpla þetta mál lítt skoðað eftir tvær ræður og helst ekki mikið meira.

En aftur um umræðuna, af því að við reynum mjög að tala varlega þessar mínúturnar. Í tengslum við spurningar um hverra hagsmuna viðkomandi sé að gæta, þá virðast margir komast býsna ódýrt frá því að brigsla mönnum um alls konar svona óheilindi og illvilja. Mönnum er brigslað um að verja hina og þessa þjóðfélagshópa sem viðkomandi þykja þá hinir verstu fulltrúar samfélagsins.

Ég velti fyrir mér þegar ég horfi á þá sem skrifa undir þetta nefndarálit — undir nefndarálitið skrifaði m.a. hv. varaþingmaður Pírata, Álfheiður Eymarsdóttir: Hverra hagsmuna á hún að gæta í þessu máli? Hverra hagsmuna er hv. þm. Logi S. Einarsson að gæta í þessu máli? Hverra hagsmuna er hv. þm. Þorsteinn Víglundsson að gæta í þessu máli? Og svo mætti lengi telja. Það er auðvitað ekki boðlegt að vera stöðugt að brigsla mönnum um einhver slík óheilindi, þó að steininn hafi auðvitað algjörlega tekið úr með viðurstyggilegum ummælum hv. þm. Smára McCarthys fyrr í dag, sem eru auðvitað þeirrar gerðar að það er fyrir neðan allar hellur að forseti hafi ekki gripið inn í þegar þau voru sögð.