149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Auðvitað er það rétt, og auðvitað kemur það í ljós, að við þurfum á öllum þessum fjármunum að halda. Okkur munar um 8 milljarða, 12 milljarða, 13 milljarða, 23 milljarða eða hvað það er sem þarna getur munað. Við höfum næg verkefni til að setja fjármuni í.

Þegar hv. þingmenn koma hingað upp — ekki hv. þm. Ólafur Ísleifsson heldur þingmenn sem hér hafa komið í andsvar — og segja að þetta hamli erlendri fjárfestingu, af hverju færa þeir þá ekki rök fyrir máli sínu? Ég veit ekki betur en að við höfum lesið nýlega um að erlendir aðilar hafi aukið fjárfestingar sínar í fiskeldi á Íslandi. Hafa erlendir aðilar ekki verið að fjárfesta í ferðaþjónustu á Íslandi? Ég held að menn þurfi að færa rök fyrir því þegar svona er kastað fram. Við höfum spurt þessara spurninga, hvað sé að, hvað geri það að verkum að ekki sé hægt að standa í lappirnar í þessu máli og nýta fjármunina, t.d. fyrir eldri borgara. Maður veltir fyrir sér hvort verkalýðshreyfingunni, sem nú er í miklum ham, sé nákvæmlega sama um að hér sé mögulega verið að kasta milljörðum á glæ.