149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála því sem kemur fram hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, að þetta er auðvitað undarlegt verklag. Þeir sem vinna þessi plögg, þessi frumvörp, eiga að vera í ágætisæfingu hvað það varðar að gera grein fyrir tekjum sem af þessum stöðugleikaskilyrðum öllum hafa orsakast. Því að þær hafa verið gríðarlegar.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sett mig inn í tækniatriði bókhaldsutanumhaldsins en ég get ekki ímyndað mér annað en að allir þeir tugir og þau hundruð milljarða sem hafa komið inn í ríkissjóð á grundvelli þessara samninga hafi komið þar inn sem tekjur. Menn eiga því að kunna það verklag ágætlega. Það að halda því fram að þetta mál hafi engin áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs — ég skil hreinlega ekki þá framsetningu.