149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:37]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni kærlega fyrir. Af hverju var skipt um kúrs? Það er virkilega góð spurning. Það eru ýmsar hugmyndir sem bærast í kollinum á manni. Getur það verið vegna tíðra stjórnarskipta? Getur það verið af því að menn hafi alltaf verið að búa til nýja og nýja stjórnarsáttmála? Getur verið að ístöðuleysi hafi einkennt undanfarin þrjú ár?

Annað sem manni dettur í hug er hvort þetta sé þannig að embættismenn eða kerfið hafi bara fengið að halda áfram og nú sé svo komið, eins og við heyrum svo oft með Landspítalann — ég get ekki látið vera að tengja hann inn í þetta — að menn séu komnir svo langt í vitleysunni að þeir geti ekki snúið við.

Þetta er svona það sem mér dettur í hug og væri áhugavert að fá að vita þegar búið er að halda fund í efnahags- og viðskiptanefnd hver niðurstaðan verður. Af hverju hefur málið endað eins og það virðist vera að enda núna, í algjörri ringulreið og jafnvel uppgjöf?