149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Áætlun sem stjórnvöld settu fram og var hrundið í framkvæmd byggði fyrst og fremst á því að tryggja efnahagslegan stöðugleika, hv. þingmaður, og að greiðslujöfnuður þjóðarbúsins væri sjálfbær. Ákveðið var hins vegar að hafa varfærnissjónarmið að leiðarljósi svo ekki skapaðist fjármagnsflótti frá innlendum aðilum þegar takmörkunum yrði aflétt af erlendum fjárfestingum innlendra aðila. Grundvöllurinn að öðrum aðgerðum, til að mynda stöðugleikaskattinum, sem hv. þingmaður á að kannast ágætlega við, og samningum við kröfuhafa föllnu fjármálafyrirtækjanna, byggði á þessari forsendu. Greining á þörf þjóðarbúsins fyrir gjaldeyrisforða var lögð til grundvallar þessari vinnu og einnig við að ákveða gengið sem ákveðið er í útboðum erlends (Forseti hringir.) gjaldeyris á aflandskrónumarkaði. Nú eru bara töluvert aðrar aðstæður sem betur fer, vegna þess að þetta tókst allt saman, hv. þingmaður. Þetta tókst allt. Og þess vegna erum við í stöðu til þess að tryggja (Forseti hringir.) eðlilegar fjármagnshreyfingar milli Íslands og annarra landa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)