149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það vekur vissulega spurningar að vorið 2016 þegar horfur voru betri en nú skuli stjórnvöld hafa talið réttlætanlegt að setja eigendum aflandskróna „afarkosti“, eins og hér stendur, en nú þegar aðstæður í efnahagslífinu eru dekkri sé ekki réttlætanlegt að viðhalda þeim afarkostum. Afskaplega sérkennilegt. Maður veltir fyrir sér hvers vegna. Við höfum ekki fengið neinar pólitískar skýringar á þessari stefnubreytingu. Við höfum fengið hefðbundnar og gamalkunnar tilvitnanir í markaðinn og að kerfið vilji hafa hlutina svona og hinsegin.

Getur verið að mati hv. þingmanns að þetta sé bara enn ein staðfestingin á því að við sitjum uppi með kerfisríkisstjórn, ekki pólitíska stjórn, ekki stjórn með tiltekna sýn heldur stjórn sem í raun stjórnast af kerfinu?