149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það var fallegt um að litast í fatahengi Alþingis þegar ég kom hingað í hús í morgun beint af nefndasviði Alþingis. Þar sat fríður hópur barna frá leikskólanum Rofaborg. Þau voru að klæða sig í útifötin, þykka galla, kuldaskó, húfur og vettlinga, öll svo dugleg að gera þetta allt meira og minna sjálf, að basla.

Þetta leiddi huga minn að ríkisstjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þar stendur, með leyfi forseta, undir liðnum Jöfn tækifæri:

„Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.“

Hópurinn í fatahenginu í morgun leiddi huga minn að öðrum hópi í íslensku samfélagi. Í þeim hópi eru um 6.000 börn. Þau búa við fátækt á Íslandi. Nú standa yfir kjaraviðræður milli ríkis, atvinnumarkaðarins og verkalýðsfélaga. Þær snúa einna helst að láglaunahópi verkafólks í landinu. Það gefur því augaleið og auðvelt að færa rök fyrir því að áðurnefndur hópur fátækra barna tilheyri einmitt þeim hópi sem nú stendur í kjaraviðræðum um bættar kröfur og mannsæmandi lífsgæði.

Ég hvet stjórnvöld til að hafa þessa tengingu í huga í áframhaldandi viðræðum og gleymum því ekki (Forseti hringir.) að þetta er lykilatriði í því að skapa jöfnuð, skapa jöfn tækifæri fyrir börn þessa lands.