149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[14:12]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með framkomna þingsályktunartillögu og styð að sú vinna sem óskað er eftir að fari fram fari af stað. Þær sveiflur sem Suðurnesin hafa búið við í rúman áratug, frá brotthvarfi varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli, eru án fordæma — niðursveiflan með fækkun starfa, atvinnuleysi og áhrifum efnahagshrunsins og síðan uppsveiflan sem hefur orðið síðustu ár með algjörri sprengingu í fólksfjölgun og eftirspurn eftir vinnuafli. Þvílíkar breytingar eru mikil áskorun og má segja að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafi staðið sig mjög vel í þeim umskiptum. Eiga þau hrós skilið fyrir það. Þeim hefur ekki endilega verið gerður róðurinn léttari af ríkisins hálfu í þessum öldusjó, samanber það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni, með leyfi forseta:

„Fjöldi íbúa á Ásbrú, þar sem bandarískir hermenn dvöldu á meðan herinn var hér á landi, hefur tvöfaldast á undanförnum sex árum. Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina sem varð við það hverfi í Reykjanesbæ, þó að með lögum sem sett voru 2006 hafi bæjarfélaginu verið skylt að gefa ríkinu afslátt af fasteignagjöldum. Sá afsláttur nam í árslok 2016 rúmum hálfum milljarði króna. Á sama tíma hefur ríkið selt eignir sem herinn skildi eftir fyrir marga milljarða króna.“

Það er eiginlega alveg ótrúlegt að þetta sé svona því að í raun er þessi þjónusta sem ríkið á að veita þarna lögbundin. Það er með ólíkindum að allir þessir peningar hverfi úr samfélaginu og komi ekki inn í staðinn meðan þörfin vex.

Þessi lækkun sem talað er um að hafi orðið mjög hröð á síðustu árum — og er stutt af úttekt ráðgjafarfyrirtækisins Atons sem vann hana fyrir Reykjanesbæ — sýnir að þetta eru hlutir sem þarf að fara mjög rækilega ofan í. Það er, skil ég, mjög grátlegt fyrir íbúa Suðurnesja að horfa upp á þessa lækkun fasteignagjalda og þær tekjur sem ríkið fær og á sama tíma sé lækkun miðað við íbúafjölda inn á svæðið.

Ég tek líka undir það sem stendur í greinargerð:

„Flutningsmönnum þessarar tillögu þykir ótækt að á sama tíma og nauðsynlegt er að ráðast í bætur á vegum og almenningssamgöngum og auka við í menntun, til nýsköpunar og til uppbyggingar félagslegra innviða vegna framangreindra áskorana í tengslum við fólksfjölgun og vaxandi hlutfall erlendra íbúa sé staðan sú að ríkisframlög á hvern íbúa til heilbrigðismála og löggæslu, svo dæmi séu tekin, dragist saman.

Ég vil ítreka það sem flutningsmaður kom inn á. Manni er það hugleikið að heilbrigðisþjónustan verði mun dýrari þegar fólki fjölgar svona og ég tala nú ekki um þegar hlutfall erlendra íbúa er hátt. Hv. þm. Oddný Harðardóttir kom inn á kostnaðinn við túlkaþjónustu sem fellur beint á stofnanirnar sé íbúi sjúkratryggður á Íslandi, fyrir utan þann fjölda ferðamanna sem fer í gegnum Suðurnesin og fjölda starfsmanna sem starfar á Suðurnesjum en býr kannski hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þeir fara sem sagt þangað til vinnu. Margir af þeim myndu örugglega gjarnan vilja nýta sér innviði heilbrigðisþjónustunnar í nærumhverfi daglegra starfa. En í staðinn er það öfugt: Íbúar Suðurnesja, sem starfa á Stór-Reykjavíkursvæðinu, leita sér læknisþjónustu hér frekar en að bíða eftir því að komast að í heilsugæslu á sínu heimasvæði. Það er mjög mikilvægt að grunnþjónusta ríkis og sveitarfélaga sé til staðar og virki sem skyldi. Túlkaþjónusta fyrir sjúkratryggðan einstakling kostar í dag 5.000 kr. fyrir stofnunina en einstaklingurinn greiðir komugjald á heilsugæslu sem er 1.200 kr. Þá er það náttúrlega fyrir þá þjónustu sem hann er að sækja, hvort sem hann er að hitta lækni, hjúkrunarfræðing eða sálfræðing eða hvern sem það er. Þetta er viðbótarkostnaður og eftir því sem ég best veit er ekki gert ráð fyrir því inni í þeim reikniformúlum sem útgjöld til heilbrigðisstofnana eru byggð á.

Sveitarfélögin vilja að sjálfsögðu taka vel á móti nýjum íbúum og þurfa að nýta sína tekjustofna þar. Hér áður var komið aðeins inn á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sú breyting varð á reglugerð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, 14. gr., sem fjallar um útgjaldajöfnunarframlög, nú um síðustu áramót, að þar eru tekin inn vaxtarsvæði. Á síðastliðnum þremur árum hefur árleg fólksfjölgun verið meiri en 2,5% að meðaltali — það er liður í jöfnun að útgjaldajafna framlögin. Áður hafði verið einblínt á fólksfækkun en þarna er verið að bregðast við og greiða líka meira til þeirra svæða sem eru í svona miklum vexti.

Mér finnst umræðan um lækkun gjalda sveitarfélaga, sem hefur verið í fjölmiðlum, alla vega í gær og í dag, og verið tengd aðeins inn á þá kjarasamninga sem verið er að ræða, svolítið döpur og sérstaklega ef maður horfir til svæða þar sem mjög mikil uppbygging er í gangi og þar sem mikillar innviðauppbyggingar er þörf. Þarna þurfa sveitarfélögin að nýta hverja krónu til að hlúa að íbúum og nýta í sína grunnþjónustu. En auðvitað geta allir skoðað sitt bókhald og kíkt á hvar við getum gert betur, hvort það er í lækkun leikskólagjalda eða öðru slíku.

En það er annað sem við verðum líka að krefjast í gegnum jöfnunarsjóðinn. Jöfnunarsjóðurinn á að vera jöfnunartæki og þá er gert ráð fyrir því að fólk nýti sínar tekjulindir áður en jöfnunarsjóðurinn fer að tikka inn. Það eru margar hliðar á þessum peningi og það þarf að skoða þetta allt saman í samhengi.

En þessi þingsályktunartillaga er komin fram öðru sinni og vonandi fær hún afgreiðslu á þessu þingi svo að hægt verði að vinna hratt og vel að því að skoða stöðuna hjá þessum sveitarfélögum. Eins og tillagan ber með sér er í raun ekki verið að biðja um neitt meira en að þjónusta ríkisins sé fjármögnuð á eðlilegan hátt þannig að hún geti staðið undir þeim verkefnum sem ríkið á að sinna á þessu svæði. Ég vona að tillagan fái fljóta og skjóta meðhöndlun og jákvæðar niðurstöður.