149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[17:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu sem er ekki að koma fram í fyrsta sinn í þinginu, þ.e. þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Áhugasömum þingmönnum til glöggvunar bendi ég á ræðu sem ég flutti við þetta tilefni seinast þegar málið kom fram, hún er ljómandi góð. (Gripið fram í.) Ég mun kannski lesa valda kafla úr henni hér á eftir, með leyfi forseta, en ég veit það reyndar ekki. Auðvitað er mikilvægt að við sem samfélag tökum þessa umræðu. Það er afar mikilvægt að við fáum upp á borðið allar vangaveltur sem geta verið undir, tökum tillit til sjónarmiða, tökum tillit til lífsskoðana og veltum fyrir okkur hvernig aðrir gera þetta og hvaða umræða hefur farið fram annars staðar. Í því tilliti er tillaga flutningsmanna ljómandi góð. Hún er öfgalaus og gefur sér ekki fyrir fram einhverja niðurstöðu. Hún vill, alla vega eins og ég skil hana, sannarlega, leita eftir einhvers konar, — hvað eigum við að kalla það? — sátt um verklag áður en við förum að taka einhverjar ákvarðanir. Það er mjög góð leið.

Eins og ég sagði í fyrra, þegar við ræddum þetta, hef ég svolítið velt því fyrir mér hvort munur sé á umræðunni eftir því hver uppsetning heilbrigðiskerfanna er þar sem umræðan hefur farið fram, þ.e. hvort kjarninn í þeim heilbrigðiskerfum er almannakerfi eins og hér á Íslandi, sem er kostað af samfélaginu, eða hvort um er að ræða einkatryggingakerfi eða jafnvel kerfi þar sem menn greiða kannski megnið af kostnaðinum úr eigin vasa. Mér finnst það skipta svolitlu máli vegna þess að það væri vont fyrir okkur að við værum að einhverju leyti að taka umræðuna á forsendum sem kannski eiga ekki við hér, ef við dyttum í eitthvert slíkt hjólfar. Þess vegna er spurning hvort ekki væri gott að bæta eins og einum málslið við 2. mgr. tillögunnar þar sem komið væri inn á að sérstaklega yrði skoðað hvort munur sé á umræðunni eftir gerð og samsetningu heilbrigðiskerfa. Það held ég að geti hjálpað umræðunni mikið.

Þingmenn hafa nokkuð komið inn á, eins og áður, umræðuna um það hvernig þetta snúi að heilbrigðisstarfsfólkinu sjálfu. Auðvitað er það mjög mikilvægt. Í nútímaheilbrigðisþjónustu, jafnvel þó að tekin sé ákvörðun um einhverja tiltekna meðferð, sér ekki einhver einn um það. Það er oftast kannski einhver einn eða fáir sem taka ákvörðunina. En gerendur í meðferðinni geta verið margir og eru oftast margir. Þess vegna þarf að skoða það líka í því samhengi. Þarf að vera einhver „konsensus“ eða einhvers konar samstaða um tiltekna lendingu í tilteknu máli? Eða getur bara einhver einn aðili sagt: Þetta er svona — og þá verða allir hinir teymismeðlimir bara að gjöra svo vel að fylgja með? Geta einstaklingar í teyminu haft mismunandi skoðanir o.s.frv.? Þetta eru allt atriði sem er mjög mikilvægt að velta upp því að eins og hefur komið fram kann það að vera algerlega andstætt lífsskoðun einhverra heilbrigðisstarfsmanna og vafalítið margra að taka þátt í því sem í tillögunni er kallað dánaraðstoð.

Ég vil leyfa mér að efast um að það séu margir starfandi heilbrigðisstarfsmenn sem hafa aldrei tekið þátt í líknandi meðferð. Þar er fókusinn kannski annar, þar er fókusinn líknin. Þetta eru mjög mikilvægar spurningar að velta fyrir sér. Í greinargerð frumvarpsins er komið inn á þær kannanir sem hafa verið gerðar meðal heilbrigðisstarfsmanna um viðhorf og annað. Ef maður væri spurður í slíkum könnunum: Gætir þú hugsað sér að taka þátt í dánaraðstoð? versus: Hvað finnst þér um líknardráp? Hvað finnst þér um það sem heitir á ensku „assisted suicide“?, með leyfi forseta. Hugtök geta verið svo gildishlaðin. Við þurfum að sætta okkur við það og virða það að það er bara þannig en jafnframt að nota það fremur sem tækifæri til að dýpka umræðuna og reyna að átta okkur á tilfinningum og skoðunum sem að baki eru, fremur en að hoppa ofan í skotgrafir eða einhverja rennu, skulum við segja, sem leiðir okkur sjálfkrafa að niðurstöðu sem við vorum fyrir fram búin að gefa okkur.

Ég held að tillagan sé mjög góð og ég fagna því að hún komi aftur fyrir hv. velferðarnefnd. Ég mun halda til haga þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið innan nefndarinnar.