149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

hvalveiðar.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að játa að mér finnst það aðeins kúnstug spurning þegar spurt er hvort stjórnarslitum hafi verið hótað. Kannski segir það eitthvað um pólitíska umræðu ef hún er gegnsýrð af einhverjum hótanakúltúr, fyrirgefið slettuna, því að ég er ekki hrifin af hótanakúltúr. Ég beiti ekki mikið hótunum í samstarfi, hvorki innan ríkisstjórnar né við aðra þá sem ég vinn með, til að mynda hér við stjórnarandstöðu. Nei, stjórnarslitum var ekki hótað enda er ég ekki mikið fyrir hótanir og finnst allt of mikið um hótanir í íslenskum stjórnmálum, svo ég segi það bara algjörlega hreint út.

Mun ég beita mér fyrir breytingu? Ég mun beita mér fyrir því að við vinnum sameiginlega að því að fara í heildstæðara mat. Ég tel ekki að það mat hafi farið fram með fullnægjandi hætti eins og ég sagði mjög skýrt í fyrra svari mínu. Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi byggt ákvörðun sína á bestu mögulegu gögnum og þess vegna ber ég fulla virðingu fyrir ákvörðun hans. En ég tel hins vegar að við eigum núna að fara í það að kanna hvernig við getum ráðist (Forseti hringir.) í miklu heildstæðara mat á sjálfbærni hvalveiða.