149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar.

[10:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi það sem hér er til umræðu, skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans, verður Hagfræðistofnunin sjálf að svara fyrir þá gagnrýni sem hennar verk fá. Ég ætla ekki að fara að skýra út það með hvaða hætti hún hefur unnið sína vinnu. Besta gagnrýnin sem ég hef fengið og séð á skýrslu Hagfræðistofnunar um hvalveiðarnar birtist í Kjarnanum um miðjan febrúar frá einstaklingi sem er yfirlýstur hvalveiðiandstæðingur og fer ágætlega í gegnum þetta verk. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þá umsögn sem þar er. (HallM: Vinnur hann hjá Háskóla Íslands?) Nei, þetta er maður sem vinnur hjá fyrirtæki sem heitir Eikonomics, hann birti greiningu sína í Kjarnanum og fer ágætlega í gegnum það sem þarna er verið að gera. ég held að það sé bara þörf lesning fyrir alla að fara í gegnum þetta.

Varðandi hvalveiðarnar sjálfar og hvernig þetta er unnið birti ég fyrir lifandis löngu, á síðasta ári, með hvaða hætti ég hygðist vinna að því að taka þessa ákvörðun. Það hefur ekki verið neitt launungarmál allan þennan tíma með hvaða hætti ég ynni þetta, annars vegar með því að kalla eftir og fá ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun og hins vegar með því að reyna að fá ráðgjöf frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, sem ég held að flestir meti sem hlutlæga stofnun og hafa ekkert „illt í hyggju“. Það er sambærileg úttekt og var unnin árið 2010 þegar sú ákvörðun var tekin. Á þessum grunni tek ég mína ákvörðun sem mér ber, á grundvelli þeirra viðhorfa sem m.a. koma fram í áliti sem Hafrannsóknastofnun skilaði mér 23. janúar. Ég byggi þá ákvörðun mína, eins og ég hef margoft sagt, (Forseti hringir.) á því að við nýtum auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti. Það er meginregla að gera það á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og sem betur fer höfum við haldið því. Það er og hefur verið hingað til meginregla varðandi umhverfisvernd og nýtingu náttúrulegra auðlinda í stefnu Íslands.