149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

launahækkanir bankastjóra ríkisbankanna.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. En er hún sammála mér að við eigum að hætta að mæla launahækkanir í prósentum? Eigum við ekki að fara að halda okkur við krónutölu? Meðallaun, það lifir enginn á einhverju meðaltali. Það lifir enginn á prósentum. Það er ágætt að hafa prósentur í mælingum á alkóhóli, en þegar maður mælir prósentur gerir 40% hækkun úr 300.000 kr. hjá láglaunafólki 420.000, 40% hækkun hjá bankastjóranum er 800.000 kr. Er þetta sanngjarnt? Ég segi nei. Ég held að það sé kominn tími til að við sjáum til þess að þeir sem eru á lægstu launum og bótum geti lifað.

Ef það eru 10.000–12.000 börn í fátækt í dag lifir fólk ekki á þessum launum. Það segir sig sjálft. Og það sem mér finnst auðvitað alvarlegast í þessu máli, sem mig langar líka að fá ráðherra til að svara, er: Hver er stefna þessarar ríkisstjórnar? Er það nokkuð svo flókið að útrýma fátækt barna á Íslandi?

Ég tel að okkur beri skylda til að sjá til þess að enginn lifi við fátækt. Það hlýtur að vera það sanngjarnasta af öllu að gefa þeim sem eru þarna úti einhverja von vegna þess að það er fólk þarna úti sem á ekki fyrir mat. Það er fólk með 200.000 kr. í laun sem verður fyrir tjóni. Það á ekki fyrir mat. Það á ekki fyrir lyfjum, hvað þá þeir sem eru þar undir vegna búsetuskerðinga og annars. Við hljótum að geta séð til þess að fólk geti lifað mannsæmandi lífi og þurfi ekki að hafa áhyggjur af því um miðjan mánuðinn hvort það eigi fyrir mat eða ekki.