149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

584. mál
[11:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794 verði felld inn í EES-samninginn.

Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir tilskipuninni var ákvörðun tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Með tilskipun 2015/1794 er kveðið á um breytingar á fimm tilskipunum ESB á sviði vinnuréttar. Með breytingunum voru felldar úr gildi tilteknar undanþágur sem voru í umræddum fimm tilskipunum sem áttu við farmenn. Markmiðið með breytingunum var að tryggja farmönnum sömu réttindi og aðrir launþegar njóta og að þeir gætu nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða sem og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs.

Innleiðing tilskipunar 2015/1794 hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, lögum nr. 63/2000, um hópuppsagnir, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Félags- og barnamálaráðherra hefur á yfirstandandi löggjafarþingi lagt fram lagafrumvarp til innleiðingar á tilskipuninni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.