149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að allt öðru. Oft þegar rætt er um Reykjavíkurflugvöll er rætt um hvort það eigi ekki bara að flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur þar sem flugumferðin er og allt annað. Ég vil ekki nálgast þessa umræðu út frá því heldur segja að það er mikilvægt, eins og er rakið í þingsályktunartillögunni, að hafa miðstöð innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli og svo er það mikilvægt út af varaflugvelli og öðru slíku. En myndi það samt ekki bara styrkja hvort annað ef innanlandsflug yrði byggt upp samt sem áður á Keflavíkurflugvelli þar sem er stærsta gáttin inn í landið? Það eru yfir 80 „höbbar“ sem ferðamannastaðir úti á landi gætu markaðssett sig út frá ef það væri t.d. innanlandsflug beint frá Keflavík á helstu ferðamannastaði úti um landið til þess að dreifa ferðamönnunum. Þeir ferðamenn munu mögulega taka flugið svo til höfuðborgarinnar og skoða hana og nýta almenningssamgöngur til þess að fara til Keflavíkur og fljúga út aftur.