149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að tala stutt, ég er nefnilega á leiðinni í flug úr Vatnsmýrinni. [Hlátur í þingsal.] Ég var farin að vera svolítið stressuð hvort ég næði því eða ekki. (Gripið fram í.) Ég styð þetta mál í sjálfu sér, hvort sem við þurfum að lagfæra það á einhvern hátt eða ekki. Fyrst og fremst styð ég það út frá öryggishlutverkinu.

Í gegnum tíðina, þegar þessi mál hafa komið upp, hef ég lesið mér til í því sem um þetta hefur verið skrifað. Nýleg ritgerð, sem Guðmundur Daði Guðlaugsson skrifaði, heitir „Höfuðborg allra landsmanna“. Þar fer hann í orðræðugreiningu á því sem sagt hefur verið um Vatnsmýrarstaðsetninguna af hálfu þeirra sem eru með eða á móti.

Allt frá því að landið var tekið eignarnámi — Bretar byggðu völlinn og afhentu ríkisstjórninni hann að stríði loknu — vilja sumir meina að ríkið eigi að hafa skipulagsvaldið yfir svæðinu. Ýmislegt hefur komið fram og vissulega hefur verið gríðarlega mikil umræða um breytingu á staðarvali. Það kostar ofsalega mikla peninga, held ég, að búa til nýjan flugvöll og það yrði að gerast samhliða, þ.e. á meðan verið væri að smíða nýjan flugvöll, ef hann yrði á höfuðborgarsvæðinu, yrði hinn jafnframt að vera í gangi allan tímann. Þá værum við að festa þar gríðarlega mikla fjármuni af hálfu ríkis og borgar, geri ég ráð fyrir. Þetta er því mikið og stórt mál í sniðum.

Ég þekki málið svo sem ekki af öðru en því sem ég hef greint í orðræðunni um hæfni vallarins hvað varðar öryggismál og aðflug og alla þá hluti sem þurfa að vera í góðu lagi. Ég þekki það ekki af öðru en því sem ég get greint í orðræðunni, þ.e. af því sem flugmenn o.fl. segja um völlinn. Þar hefur mér fundist umræðan töluvert hallast á þann væng að þeir telji núverandi staðsetningu þá bestu og telji Hvassahraunið ekki til þess fallið að taka við. Það þarf kannski að greina það eitthvað betur.

Ég tek undir með 1. flutningsmanni frumvarpsins hvað varðar öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar. Eins og hér hefur komið fram er um að ræða aðaláfangastaðinn í sjúkraflugi. Um er að ræða miðstöð leitar- og björgunarflugs á vegum Gæslunnar og allra þeirra sem sinna öryggisgæslu á landi og sjó. Um er að ræða tengipunkt við staði á landinu sem gerir okkur kleift að flytja fólk, birgðir og aðrar bjargir til og frá höfuðborgarsvæðinu, ef náttúruhamfarir verða eða annað sem varðar almannavarnir. Svo er líka um að ræða tengivöll við nágrannalöndin sem má nota til að sinna sjúkraflutningum og til að sinna mikilvægum erindum í þágu öryggis landsmanna, til að flytja menn á milli landa á innan við þremur klukkustundum. Þetta er undankomuleið sem gæti nýst í rýmingu höfuðborgarsvæðisins þó að við vonum auðvitað að til þess komi ekki. Og ef Keflavíkurflugvöllur lokast af einhverjum ástæðum — eins og 1. flutningsmaður þessa máls hefur bent á hefur skapast hætta á Keflavíkurflugvelli og það hefur komið fram í umsögnum til Alþingis — er þessi völlur sá sem tekur við og hefur verið sagður bestur til þess.

Ég vil endilega að málið fái að fara í gegnum faglega umfjöllun í nefndinni, þrátt fyrir að það gæti virkað sem þrýstingur á þá vinnu sem er í gangi við að finna nýjan stað eða kanna hann betur. Þrátt fyrir að vinna við tiltekin mál sé á vegum ríkisstjórnar eða borgar eru lagðar fram ýmsar tillögur sem eiga að vekja máls á einhverju enn frekar eða vera þrýstiafl. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum. Það er spurning hvort gera á þessa spurningu leiðbeinandi eða hvort hún á að vera með þeirri niðurstöðu að henni verði fylgt. Það er eitthvað sem nefndin þarf væntanlega að taka afstöðu til, hvort hún telji það fært eða ekki.

Þegar ég var að lesa um orðræðugreininguna eru þeir sem hafa lagt lóð sitt á vogarskálarnar í þeirri orðræðu mjög gjarnan sveitarstjórar, bæjarstjórar, lögreglumenn, læknar, fólk sem stendur frammi fyrir því að þurfa að nota flugvöllinn í neyð. Í sjálfu sér veit ég ekki hvort það skipti sköpum fyrir mig hvar hann væri — ég sæki hér vinnu og fer heim til mín um helgar — varðandi tímasetningar og annað slíkt. Fyrst og fremst held ég að öryggisins vegna eigum að taka þessa spurningu til efnislegrar meðferðar.

Við stöndum frammi fyrir því að verið er að byggja þjóðarsjúkrahúsið upp. Árið 2022 er ekki langt í burtu. Það eru bara örfá ár þangað til flugvöllurinn á að víkja. Ef við ætlum okkur að reyna að byggja nýjan flugvöll er ég hrædd um að það geti tekið lengri tíma en það. Það er því óhætt að láta hendur standa fram úr ermum af öllum aðilum sem að málinu koma ef fólk vill virkilega gera breytingar, sem ég aðhyllist í sjálfu sér ekki, bara svo að það sé sagt. Það eru auðvitað mjög skiptar skoðanir, eins og hér hefur komið fram, innan minnar hreyfingar um þetta mál.