149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu allmargra þingmanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég verð nú að segja í upphafi máls míns að mér finnst þessi tillaga vond. Ég sé ekki hvernig tillagan eins og hún er fram sett leysir í rauninni nokkurt mál, hvernig hún getur höggvið á hnúta eða orðið til einhverra sátta. Ég sé það ekki.

Ég ætla hins vegar að uppljóstra því litla leyndarmáli gagnvart þingheimi og alþjóð að ég er í sjálfu sér þokkalega sáttur persónulega og prívat við að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni, en ég er hins vegar algerlega til í að virða skipulagsvald Reykjavíkur og sveitarfélaganna yfirleitt. Ég held að það sé afar varhugavert að fara þá leið að löggjafinn takmarki með þessum hætti skipulagsvald borgarinnar eða bara sveitarfélaga yfirleitt. Ég sé ekki að það væri farsælt. Það yrði þá miklu frekar að vera hluti af einhverri heildarákvörðun um slíkt.

Ég hef heldur engar áhyggjur, eins og ég hef heyrt á mörgum þingmönnum sem hér hafa tekið til máls, af því að Reykjavíkurborg taki einhverja dramatíska ákvörðun sem er algerlega í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar. Hvaða svartsýni er það? Halda menn virkilega að Reykjavíkurborg væri stætt á því að taka slíka ákvörðun yfirleitt, svona í stóra samhenginu? Það held ég ekki.

Varðandi það hvar flugvöllurinn er hef ég ekkert á móti staðsetningunni þrátt fyrir að hafa búið undir aðflugslínu norður/suður-brautarinnar í bráðum 20 ár og þykir það bara ljómandi notalegt. Það er ekki vandamálið mín vegna. En ég skil hins vegar áhyggjur Reykjavíkurborgar og ég skil umhverfissjónarmiðin sem búa að baki því að borgin velti fyrir sér: Er ekki heppilegasta leiðin til að þétta byggð að völlurinn fari á einhverjum tímapunkti?

Ég hef alltaf haft miklar efasemdir um að þegar og ef flugvöllurinn fer úr Vatnsmýri verði byggður einhver annar flugvöllur á milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Mér finnst það vera í besta falli langsótt. Ég held að lendingin yrði alltaf sú að fari Reykjavíkurflugvöllur úr Vatnsmýrinni flytjist miðstöð innanlandsflugs einfaldlega til Keflavíkur. Þá komum við að raunverulegu spurningunum í mínum huga gagnvart þeirri stöðu sem þá kæmi upp, þ.e. annars vegar: Með hvaða hætti tryggjum við að samgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar verði með þeim hætti, fyrir okkur sem ferðaþjónustuland og náttúrlega bara sem íbúa þessa lands, að flugfarþegar komist hratt og vel á milli? Og hins vegar: Hvernig tryggjum við öryggi sjúkraflugs? Þessum tveimur spurningum þurfum við að svara.

Ég held að það sé í besta falli bjartsýni að halda að það hafi verið einhver samstaða um það einhvern tímann á suðvesturhorninu, með öllum þeim umhverfisáhrifum sem af því myndu hljótast, að setja niður nýjan flugvöll í Hvassahrauni eða einhvers staðar hérna á svæðinu, brjóta nýtt land undir mannvirki eins og flugvöll með þeim gríðarlegu samgönguframkvæmdum sem hlytu að verða í kringum það. Ég get ekki séð að það yrði auðvelt.

Ég held þess vegna að við eigum að treysta borginni fyrir að taka skynsamlegar ákvarðanir í þágu allrar þjóðarinnar. Ég held að sveitarstjórnarmönnum í Reykjavík sé fullljós sú ábyrgð sem á þeim hvílir í þessu máli. Ég held að þeim sé fullljós sú ábyrgð sem hvílir á borginni sem höfuðborg okkar allra og við eigum bara að eftirláta þeim að standa undir þeirri ábyrgð. Við eigum miklu frekar að hugsa hvað muni gerast þegar og ef völlurinn fer frá Reykjavík en að hafa áhyggjur af hinum atriðunum. Ég tel ekki að þessi þingsályktunartillaga leysi vandann.