149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

fjórða iðnbyltingin.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, sem jafnframt er formaður framtíðarnefndar, sem er samstarfsverkefni Alþingis og forsætisráðuneytis. Ég held að það skipti miklu máli því að hv. þingmaður nefnir til hvaða aðgerða eigi að grípa. Ég held líka að það sé tímabært að við förum að ræða hvort ekki sé ástæða til að festa þá nefnd í sessi með formlegum hætti í þingskapalögum. Það er nú fyrst og fremst formsatriði.

Við hv. þingmaður vorum saman á umræddu málþingi. Það eru að verða gríðarlegar breytingar, ekki bara á vinnumarkaði. Og það er kannski það sem þessi skýrsla sýnir, hún snýst ekki eingöngu um breytingar á vinnumarkaði heldur líka breytingar á samfélaginu öllu, umræðuhefð í samfélaginu, en hugsanlega líka breytingar á mjög djúpstæðum þáttum eins og sjálfsmynd okkar mannanna.

Ég vitnaði á þessu þingi í ísraelska fræðimanninn Yuval Noah Harari sem skrifað hefur mikið um þessi mál. Hann veltir því fyrir sér hvort trúarbrögð nýrrar aldar séu trúin á gögnin og trúin á upplýsingarnar; eftir að við höfum færst frá guðstrú yfir í mannstrú trúum við nú fyrst og fremst á gögnin. Mér fannst þetta áhugaverð kenning. En þetta er eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur: Hvernig búum við að gögnum okkar, þannig að ég tali um áþreifanlegar aðgerðir? Hvernig höldum við utan um gögnin í samfélagi okkar? Þar getum við gert betur því að við lendum ítrekað í því að vera ekki með fullnægjandi gögn en erum um leið í einstökum færum til að byggja ákvarðanir okkar á góðum gögnum. Við höfum dæmi um það núna, nýjan vef, tekjusagan.is, þar sem við erum með alveg einstök færi á að safna saman gögnum og byggja þannig stefnumótun okkar á raungögnum.

Síðan er það fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun. Þar er ríkisstjórnin þegar búin að marka stefnuna hvað varðar háskólastigið og framhaldsskólastigið. Við erum með fyrirætlanir um að fjárfesta með beinum hætti meira í nýsköpun, sem ég held að sé algjört lykilatriði, því að eins og kom fram stendur Ísland að baki öðrum Norðurlöndum þegar kemur að flestum þáttum sem lúta að nýsköpun nema hvað varðar hina tæknilegu innviði. Við nýtum hina tæknilegu innviði þannig að við erum öll á samfélagsmiðlunum, við erum líklega (Forseti hringir.) með hæsta hlutfall þjóðarinnar á samfélagsmiðlum í heiminum, en um leið getum við gert miklu betur í að nýta þessa góðu tækniinnviði.

Síðan vil ég nefna neðri stig menntakerfisins í næsta innleggi.