149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

rafræn skjalavarsla héraðsskjalasafna.

503. mál
[15:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað í ræðustól til að ræða þetta málefni. Þjóðskjalasafn Íslands starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, en í 3. gr. þeirra segir:

„Þjóðskjalasafn Íslands gegnir hlutverki sem framkvæmdaraðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar. Að auki gegnir safnið hlutverki opinbers skjalasafns.“

Þeir þættir í hlutverki safnsins sem snerta stjórnsýsluna eru bæði sértækir, sem snúa að því að leiða skjalastjórn og skjalavörslu ríkis og sveitarfélaga með því að setja reglur um varðveislu og förgun skjala, gefa út leiðbeiningar og hafa eftirlit með skjalavörslu afhendingarskyldra aðila, gera tillögur um leyfi til reksturs héraðsskjalasafna og hafa eftirlit með þeim, sem og almennir, sem gilda þá fyrir opinber skjalasöfn sem lúta að því að taka við og varðveita skjöl, bæði rafrænt og á pappír, frá afhendingaskyldum aðilum sem og einkaaðilum.

Virðulegi forseti. Varðandi sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga leiðir af 78. gr. í stjórnarskránni og lögum um opinber skjalasöfn að ákvörðun um rekstur héraðsskjalasafna eða þátttöku í samlagi um rekstur slíks safns er á valdi hvers sveitarfélags. Þau sveitarfélög sem ekki reka héraðsskjalasöfn geta samið við Þjóðskjalasafnið um rafræna vistun skjala. Ríkisvaldið setur ramma um rafræna skjalavörslu með reglugerð um rekstur héraðsskjalasafna á grundvelli laga um opinber skjalasöfn og styrkir síðan söfnin með framlögum í formi samninga og styrkja til safna. Framlag ríkisins á fjárlögum nemur 31,5 millj. kr. til héraðsskjalasafna.

Sveitarfélögin bera samkvæmt framansögðu ákveðnar lagaskyldur þegar kemur að opinberri skjalavörslu. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er sveitarstjórn skylt að sjá til þess að lögbundnar skyldur séu virtar og hafa eftirlit í því efni.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins í bígerð reglugerð um rekstur héraðsskjalasafna og mun hún innan tíðar verða til umfjöllunar í samráðsgátt stjórnvalda. Í henni verður skerpt á hlutverki héraðsskjalasafna við varðveislu rafrænna gagna. Við gerð hennar er m.a. litið til athugasemda sem bárust við fyrri drög reglugerðarinnar. Rétt eins og öðrum þingmönnum barst mér erindi í dag, þ.e. tölvupóstur, um héraðsskjalasöfnin og rafræna skjalavörslu sem verður líka tekin til skoðunar í ráðuneytinu. Þá vil ég einnig upplýsa hv. þingmann um að í kjölfar þessarar fyrirspurnar mun ég ræða þetta málefni sérstaklega við nýjan þjóðskjalavörð sem verður skipaður á allra næstu dögum.

Að lokum vil ég segja um aðlögunina að það er auðvitað mjög brýnt að við hugum að því vegna þess að þetta er umtalsverður kostnaður og bæði Þjóðskjalasafnið og héraðsskjalasöfnin hafa rætt sín á milli hvernig best sé að skipta því. Við erum líka að stíga inn í nýjan heim varðandi áherslu á að varðveita rafræn gögn. Ég legg mikla áherslu á það sem ráðherra málaflokksins að það sem við gerum sé sjálfbært og að góð sátt sé um það milli Þjóðskjalasafnsins og héraðsskjalasafnanna.