149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

friðun hafsvæða.

545. mál
[17:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka þessa þátttöku bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmanns. Stundum finnst okkur sem erum með umhverfismálin svona nær hjartanu að stundum skorti á umræður í þingsal um þau mál.

Mig langar að koma inn á ákveðinn þátt varðandi nytjar, þ.e. notkun ólíkra veiðarfæra, af því að við erum að tala um hafið, sérstaklega botnvörpur sem eru orðnar stærri og fullkomnari með árunum. Það er afar lítið vitað um áhrif þeirra á botn og lífríki. Það eru auðvitað til erlendar rannsóknir. Hér er til ein lítil gömul rannsókn innan úr Faxaflóanum, það er allt og sumt, þannig að þar væri kannski ástæða til að skoða betur. Það sama á við um að kortleggja betur botngerðir og lífríki vegna þess að friðun getur átt við mjög lítil svæði sem eru mikilvæg vegna sérstöðu. Allt eru þetta verkefni sem blasa við. Það sama gildir um lífverur sem ég nefndi áðan, sem eru kalkþörungar sem Ísland er nokkuð ríkt af. Íslenskir firðir, sérstaklega á norðvestanverðu landinu, eru ríkir af kalkþörungum sem er eitt af dýrunum sem eru undir smásjá OSPAR, kannski ekki alveg á válista OSPAR.

Ég spyr ráðherra hvort ekki sé kominn tími til að settur verði á stofn verkefnishópur sem fer að hyggja að þeirri friðun sem okkur ber eiginlega að stuðla að í allra nánustu framtíð.