149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Laun bankastjóra Landsbankans hækkuðu um 1,8 millj. kr. á mánuði, úr 2,1 í 3,8 millj. kr., þ.e. 80% hækkun. Mánaðarlaun viðkomandi bankastjóra eru tólf- til fimmtánföld lífeyrislaun öryrkja. Er sanngjarnt að öryrkjar og aðrir lífeyrisþegar fái 40.000 kr. á mánuði næstu þrjú árin, sem eru 120.000 kr., eins og verkalýðsforystan hefur farið fram á fyrir skjólstæðinga sína? Við erum að tala um 3.500 kr. á mánuði næstu 36 mánuði, það er nú öll hækkunin. Hvort er sanngjarnara að hækka um 133.000 kr. bifreiðastyrk forstjóra Landsvirkjunar, úr 87.000 kr. í 220.000 kr. á mánuði, eða hækka um 40.000 kr. næstu þrjú árin, samtals 120.000 kr., fyrir þá sem minnst hafa? Þarf forstjóri með 3,2 millj. kr. á mánuði að fara í tæpar 3,5 millj. kr. í boði ríkisstofnunar til að kaupa sér 10 millj. kr. bíl? Getur forstjóri á ofurlaunum ekki keypt sér bifreið sjálfur? Hvað er að í þjóðfélagi okkar? Í boði ríkisstjórnarinnar horfum við á afleiðingar fátæktar sem aftur leiðir af sér vannæringu og síðan pirring, óróa, minnisleysi, þunglyndi, kvíða og minnkandi hreyfihæfni. Hvað á svo að gera þegar búið er að svelta veikt og slasað fólk og eldri borgara þessa lands? Heilsan er farin. Einstaklingur, eins og ég sá nýlega, á að lifa af 235.000 kr. í boði ríkisstjórnarinnar, búið að skattleggja og skerða lífeyrissjóðinn hans um 80–100% og eftir fastakostnað, í húsnæði og annað, á hann 15.000 kr. eftir í mat á mánuði, 500 kr. á dag. Á hann að fara til sálfræðings vegna kvíða og þunglyndis, borga 15.000 kr. fyrir tímann og svelta? Hvað um framtíðina? Ef þessi einstaklingur veikist illa vegna vannæringar, hvað þá? Fær hann forgang í heilbrigðiskerfinu eða er forgangurinn eingöngu fyrir þá útvöldu sem eru á háum launum og fá enn hærra útborgað?