149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sá ánægjulegi atburður átti sér stað í síðustu viku að félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra skrifuðu undir tveggja ára samning um rekstur nýrrar þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri. Þjónustumiðstöðin verður rekin sem tilraunaverkefni til tveggja ára og miðast fjárframlög ráðuneytanna við það. Hérna er um að ræða sambærilega þjónustumiðstöð og Bjarkarhlíð, sem margir þekkja, sem starfrækt er á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er í takti við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Lögreglustjórinn á Akureyri hefur talað ötullega fyrir þessu verkefni og fyrir því að þessi miðstöð yrði að veruleika og hún hefur yfirumsjón með verkefninu. Aðrir sem koma að starfseminni eru Akureyrarkaupstaður, Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Eins og sjá má er þetta mjög þverfaglegur og einstaklega góður hópur, enda er um að ræða samhæfða þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi af einhverjum toga og er þeim að kostnaðarlausu.

Í miðstöðinni gefst brotaþolum tækifæri á stuðningi og ráðgjöf í kjölfar ofbeldis. Þessi starfsemi er kærkomin fyrir þolendur sem búa á Norður- og Austurlandi og vonandi verður hægt að víkka þessa starfsemi enn frekar út þannig að hægt verði að bæta við starfsstöðvum í framtíðinni svo að fólk þurfi ekki að sækja bæði sálgæsluleg, félagsleg og lagaleg úrræði um langan veg eins og reyndin hefur verið fram til þessa.

Nú er búið að auglýsa eftir teymisstjóra og gert er ráð fyrir því að starfsemin hefjist í byrjun apríl. Svo þarf auðvitað að finna nafn á starfsemina og ég hvet áhugasama til að leggja fram tillögur, t.d. á fésbókarsíðu lögreglunnar á Akureyri.