149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Fram kemur í máli hans að verið sé að koma til móts við óskir fjármálafyrirtækjanna í þessum efnum og þjófstarta þessu, að lækka þetta eða breyta þessu fyrr en þyrfti að gera. Hæstv. ráðherra minntist einnig á að hann vonaðist til þess að vextir hér lækkuðu. Að sama skapi væri gott að fá það fram hjá honum hvort hann telji t.d. að vextir á innlánum, þ.e. þegar almenningur leggur peningana í bankann, ættu þá ekki að hækka líka. Almenningur fengi þá betri kjör hjá bönkunum hvað það varðar.

Ég hef efasemdir um að þessi aðgerð muni lækka vexti í landinu og að þetta komi til með að færa almenningi betri kjör. Það væri gott að fá það fram hjá ráðherra hvort hann telji að þessi aðgerð ein og sér skipti miklu máli. Ég verð að segja að ég sé það ekki.

Þessi sjóður stendur ágætlega en hann er líka mjög mikilvægur. Það er bara sérstaða okkar hér að við gengum í gegnum efnahagshrun og það er afar mikilvægt að til staðar sé sjóður sem gæti þá a.m.k. gripið inn í eitthvað af því tjóni sem yrði, sem við vonum að sjálfsögðu að verði ekki. Það er ástæðan fyrir því að þessi sjóður er til staðar. Svo væri ágætt að fá hugleiðingar ráðherra um hvort ríkissjóður ætti þá ekki tilkall í eitthvað af peningunum í þessum sjóði fyrir þetta svokallaða ábyrgðargjald fyrir það að hafa ábyrgst innstæður landsmanna í aðdraganda efnahagshrunsins og eftir það.