149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að víkja fyrst að því sem segir fremst í greinargerðinni, að lögð til sé til lækkun á almennum hluta iðgjalds sem viðskiptabankar og sparisjóðir greiða til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna innstæðutrygginga. Það er sem sagt verið að lækka gjaldið sem bankar eiga að greiða til Tryggingarsjóðs.

Þetta er ekki fyrsta gjaldið sem ríkisstjórnin lækkar á fjármálafyrirtæki, þ.e. bankanna. Við þekkjum það að bankaskatturinn verður lækkaður. Í fjárlagafrumvarpinu var einnig lækkað sérstakt gjald sem fjármálastofnanir greiða til Fjármálaeftirlitsins.

Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórninni er sérlega umhugað um að lækka gjöld á fjármálafyrirtæki í landinu. Er það svolítið sérstakt í ljósi þess umhverfis sem við erum í núna, efnahagsumhverfisins, þar sem kjaraviðræður eru fram undan og óvíst hvernig þær viðræður koma til með að þróast.

Ég get ekki séð annað í greinargerðinni en að rökin fyrir því að lækka gjöldin séu þau að það sé svo mikið í Tryggingarsjóði og umfram það sem Evrópulöggjöfin mæli fyrir um. Sjóðurinn stendur, eins og kemur fram, í 38,6 milljörðum kr. og fyrirtækin eða bankarnir greiða árlega um 3,5 milljarða kr.

Lækkunin á því gjaldi er töluverð og að sjálfsögðu eru væntingar um að hún skili sér til almennings. Ég heyri á málflutningi hæstv. ráðherra að hann vonast til að svo verði.

Ég sagði áðan og hef sagt annars staðar að ég hef efasemdir um að lækkanir af því tagi skili sér til almennings í formi lægri útlánavaxta og þá hærri innlánsvaxta, en við verðum að sjá hvort sú verður raunin. Það er athyglisverð nálgun hjá ríkisstjórninni, sérstaklega með Vinstri græna í forsæti, að lækka enn og aftur álögur á bankana.

Við verðum að átta okkur á því að mikilvægt er að sjóður sem þessi sé vel stöndugur, ef svo má að orði komast. Við þekkjum söguna, við þekkjum efnahagshrunið. Það er mikilvægt að til sé sjóður sem getur gripið inn í aðstæður ef þess þarf. En það er umhugsunarefni hvers vegna verið er lækka gjöldin núna og með svona skömmum fyrirvara, þetta á að taka gildi eftir þrjá mánuði. Á sama tíma er fram undan innleiðing á nýju regluverki og þá spyr maður sig: Er málið að bankarnir hafi ámálgað við fjármálaráðherra að nauðsynlegt væri að lækka iðgjaldið sem allra fyrst? Er síðan bara orðið við því eins og ekkert sé?

Það eru ýmis gjöld sem þarf að lækka og ýmsir sem vilja láta lækka gjöld. Ég nefni t.d. að Félag bifreiðaeigenda, FÍB, hefur margsinnis talað fyrir því að lækka álögur á bifreiðaeigendur og eflaust átt fund með hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar. Þeim hefur ekkert orðið ágengt í þeim efnum. Hins vegar virðast bankarnir hafa sérstakt lag á því að sannfæra fjármálaráðherra um að nauðsynlegt sé að lækka álögur á bankana. Það vekur að sjálfsögðu nokkra athygli.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem segir í greinargerðinni um samráð við vinnslu frumvarpsins. Það er augljóst að bankarnir eru sammála því að lækka álögurnar og ekkert undarlegt að þeir mæli með frumvarpinu. Það er fullkomlega eðlilegt vegna þess að sjálfsagt hafa þeir haft frumkvæði að því að þær yrðu lækkaðar. Enn og aftur spyr maður sig: Kemur almenningur til með að njóta þessa? Þeir hafa svo sem ekki haft miklar áhyggjur af afkomunni hingað til. Að sjálfsögðu vekur athygli að mjög gott svigrúm sé innan þeirra raða til að hækka laun stjórnenda, og þá sérstaklega bankastjóra, um tugi prósenta og hafa þar að engu tilmæli efnahags- og fjármálaráðherra um að gæta aðhalds í þeim efnum, en koma svo á sama tíma fyrir sama hæstv. ráðherra og óska eftir því að álögur á bankana verði lækkaðar.

Þetta er mjög sérstakur málflutningur af hálfu þessara fyrirtækja að mínu mati og ég verð að segja að mér finnst ríkisstjórnin hafa látið mjög auðveldlega undan. Það hefði verið tiltölulega auðvelt að segja að til stæði heildarendurskoðun, eins og stendur til, og að innleiða nýtt regluverk og þeir gætu beðið fram að þeim tíma. Ég held að það sé fullkomlega eðlileg nálgun sem ráðherra hefði átt að leggja upp með í upphafi.

Það er svo sem einnig áhugaverð nálgun að taka eigi fjármuni úr sjóðnum og greiða í skilasjóð. Ég get tekið undir að það er áhugaverð nálgun.

Herra forseti. Að lokum ítreka ég að mér finnst þetta frumvarp mjög sérstak og að það skuli vera lagt fram því árferði sem við erum í, þ.e. þegar kjaraviðræður eru fram undan og fleira í þeim efnum. Þá á að gefa út að enn og aftur standi til að lækka álögur á bankana. Ég er ekki viss um að þetta frumvarp sé gott innlegg í þá umræðu. Þess vegna kemur mér á óvart að frumvarpið skuli vera komið fram og að svo skammur tími sé til stefnu þar sem lögin eiga að koma til framkvæmda eftir þrjá mánuði.

Auk þess veltir maður fyrir sér hvort hér liggi að baki þrýstingur frá fjármálafyrirtækjum eða bönkum og menn hafi látið undan honum eins og ekkert sé. Menn verða náttúrlega að vera staðfastir í þeim efnum þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum kjaraviðræðum. Það hefði verið auðvelt að benda þeim fyrirtækjum á að til stæði að endurskoða regluverkið og þeir yrðu að bíða þolinmóðir fram að því.