149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og kom fram strax í upphafi máls míns dreg ég ekki í efa rannsóknir sem sýna fram á skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu yfir höfuð. Það er alveg rétt að til er fjöldinn allur af rannsóknum og m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur mikið upp úr stýringu á aðgengi en ekki síður því sem meira og minna öll Norðurlöndin eiga sameiginlegt, mikilli skattlagningu til að gera áfengi mjög dýrt.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hverju sem haldið er á lofti í almennri umræðu sýnir fjölgun vínveitingastaða og áfengisverslana einfaldlega að við höfum ekki fylgt þeirri stefnu að takmarka aðgengi neitt sérstaklega. Ég held að fullyrða megi að í dag erum við með fullt aðgengi að áfengi á vínveitingastöðum og í vínveitingaverslunum og hér er fyrst og fremst verið að segja: Við viljum þá leyfa öðrum að versla með það líka.