149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í fyrra svari mínu til hv. þingmanns: Ég sé þess engin merki þegar við horfum á þá miklu og öru fjölgun sem orðið hefur á bæði vínveitingastöðum og smásöluverslunum með áfengi á undanförnum árum að við höfum haft sérstaka opinbera stefnu um að takmarka aðgengi að áfengi.

Við erum með stefnu um ríkiseinokun í áfengissölu en því sama einokunarfyrirtæki hafa ekki verið sett nein sérstök skilyrði eða fyrirmæli af hálfu hins opinbera um að takmarka fjölgun útsölustaða, reyna einhvern veginn að afmarka eða einangra staðsetningu þeirra, eins og áður var gert. Áfengisstefna okkar á undanförnum árum, örugglega tveimur áratugum hið minnsta, hefur fyrst og fremst snúið að skattlagningu á áfengi og virkum forvörnum. Ég tel að við eigum að horfast í augu við þá staðreynd og halda þeirri stefnu áfram en afnema ríkiseinokunina sem er á smásöluhluta áfengisverslunar eins og nú er.