149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að gera þá játningu að ég er forræðishyggjumaður eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan. Ég er á móti asbesti í húsbyggingum, ég vil að fólk noti bílbelti og ég er á móti því að börn séu laus í bílum. Þetta er náttúrlega forræðishyggja af verstu sort, ég viðurkenni það fúslega. Ég er alveg til í að fara með þetta mál aftur á söguöld en ekki bara 100 ár aftur í tímann ef það er það sem þarf. Það kom fram hjá hv. þingmanni áðan að hversdagsprútt fólk fer út og ætlar að gera sér glaðan dag en það endar illa. Í danskri rannsókn frá 2017 kemur fram að þeir sem drekka mest í Danmörku, þ.e. mest magn, verst, eru háskólaborgarar sem eru 65 ára plús. Það eru ekki einhverjir rónar undir brúm í Kaupmannahöfn, ekki aldeilis.

Mig langaði hins vegar til að spyrja hv. þingmann eins af því að hann er lögreglumaður að ævistarfi. Hér var talað um hæfilega marineringu, þ.e. þessa breytingu á drykkju sem orðið hefur með lögleiðingu bjórs og með því aukna aðgengi sem við þekkjum. Hefur þessi nýja drykkjumenning, sem svo er kölluð, haft áhrif til góðs hvað varðar breyskleika manna? Er minna um líkamsárásir, er minna um heimilisofbeldi? Er minna um alvarlegar líkamsárásir? Er minna um húsbrot? Er minna um innbrot eftir að þessi svokallaða hófdrykkja komst á hér á Íslandi fyrir 20 árum plús?