149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[10:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Almennt má segja þetta um málið: Við Íslendingar og íslensk stjórnvöld höfum og munum reyna að halda í sérstöðu okkar þegar kemur að dýrasjúkdómum og öðru slíku. Það er full ástæða til þess, ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir alla, að líta sérstaklega til nýrra ógna sem við höfum ekki séð áður og stafa af allra handa ofnæmi, ónæmi og öðru slíku. Þá tala menn oft um það í tengslum við sýklalyf.

Það er mikil gæfa fyrir okkur að íslenskir bændur hafi tekið ákvörðun um það, fyrir margt löngu, að fara ekki sömu leið og margar þjóðir sem við berum okkur saman við þegar kemur að framleiðslu á landbúnaðarafurðum. Þá er ég að vísa til þess að við notum miklu minna af sýklalyfjum en t.d. lönd í Evrópu.

Auðvitað vekjum við í allri okkar hagsmunagæslu athygli á þessu. Ég held hins vegar að það snúi ekki bara að stjórnvöldum. Ég held að það skipti máli að bæði framleiðendur og verslun haldi réttum upplýsingum að almenningi, viðskiptavinum sínum og neytendum. Gæði á kjöti eru mjög misjöfn eins og öllum öðrum vörum, bara svo að eitt dæmi sé tekið. Hið sama má náttúrlega segja um grænmeti. Það er t.d. ástæðan fyrir því að ég vel íslenskt kjöt og íslenskt grænmeti, ég veit hvaðan það kemur og þekki það mjög vel. Þó er ég gott dæmi um að það er ekki bráðdrepandi að borða erlent því að ég geri það mikið á ferðum mínum.

Varðandi spurningu um hvað ég hafi gert í þessu máli hef ég tekið það upp við Mogherini og átt símafund, það var ekki hægt að ná því öðruvísi. Svörin voru hins vegar mjög skýr hvað varðaði það mál sem hv. þingmaður vísaði til. Dómur liggur fyrir. Hv. þingmaður hefur kannski rétt fyrir sér í að menn hefðu átt að byrja fyrr að huga að þeim (Forseti hringir.) málum en þá erum við að tala um miklu fyrr, fyrir meira en tíu árum. Við þurfum að vinna úr þeirri stöðu sem nú er uppi og hún er mjög einföld: Dómur hefur fallið.